Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óðni siglt á Akranes

16.06.2020 - 03:12
Varðskipið Óðinn tekið í slipp.
 Mynd: Sjóminjasafnið
Næstkomandi föstudag, 19. júní verður varðskipinu Óðni siglt frá Reykjavík til Akraness. Skessuhorn greinir frá þessu.

Óðinn var smíðaður í Danmörku 1959 og lék lykilhlutverk í þremur þorskastríðum á tuttugustu öld.

Þetta fornfræga gæslu- og björgunarskip hefur verið hluti Sjóminjasafnsins frá árinu 2008 þegar ákveðið var að varðveita það fremur en að selja það úr landi.

Hollvinasamtök skipsins voru stofnuð árið 2006 og hafa annast það viðhald og umhirðu sem nauðsyn krefur.

Félagar í samtökunum verða um borð í Óðni á siglingu hans yfir Faxaflóa á föstudaginn. Áætlað er að hann leggi frá höfn í Reykjavík um kl. 11 árdegis og að siglingin taki um klukkustund.

Harla langt er síðan Óðinn kom síðast til Akraness, jafnvel er á huldu hvort hann hafi nokkurntíma komið þar að landi.

Til stendur að sögufrægt varðskipið verði opið almenningi á Akranesi til klukkan hálfþrjú á föstudaginn.