Nýju smitin viðbúið bakslag segir sóttvarnalæknir

Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / RÚV
Tveir reyndust smitaðir af kórónuveirunni í landamæraskimun í gær. Lögreglumaður á Selfossi smitaðist af Rúmenunum sem handteknir voru um helgina. Viðbúið bakslag segir sóttvarnalæknir. Sjö manns eru nú í einangrun með kórónuveirusmit.

Smitraknig á fullu 

Um tvö þúsund farþegar hafa komið til landsins um Keflavíkurflugvöll á tveimur dögum. 860 komu í dag en um ellefuhundruð komu til landsins í gær. Þá voru tekin 927 sýni. Börn yngri en sextán ára þurfa ekki að fara í skimun. Tvö sýni reyndust jákvæð. Annað hjá erlendum ferðamanni en hann er með mótefni í blóði og þarf því ekki að fara í einangrun. Íslendingur sem búsettur er ytra greindist með smit og er komin í einangrun. 

„Þetta er bakslag miðað við það sem hefur verið undanfarið,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir,  „við höfum náttúrulega ekki verið að sjá nein raunveruleg smit undanfarið í þeim skilning er þetta bakslag. En þetta er eitthvað sem við bjuggumst við að myndi gerast. Við getum búist við því áfram og við verðum bara að vera tilbúin til að takast á við það.“

Þórólfur telur að Íslendingurinn sé með lítil einkenni COVID-19. Víðir Reynisson segir að smitrakningateymið hafi fengið að vita af smitinu í gærkvöld og að eftir að Íslendingurinn hafi var á COVID-göngudeildina í morgun hafi smitrakning farið á fulla ferð. 

Verið er að sníða hnökra af sýnatökunni á flugvellinum í gær, til dæmis fengu sumir ekki senda tilkynningu um niðurstöðu sýna og sýni úr hverju flugi eru nú keyrð sér beint til Íslenskrar erfðagreiningar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Farþegar við komu til landsins í gær.

Lögreglumaður á Selfossi í einangrun

Einn lögreglumannanna á Selfossi, sem settur var í sóttkví á laugardag eftir að hafa átt samskipti við Rúmenana sem grunaðir voru um þjófnað rétt fyrir helgi, greindist með smit í morgun. Hún er nú komin í einangrun, segir Víðir, og ekki sé talin hætta á að hún hafi smitað aðra. 

Ekki í boði að faðmast

Íslendingar sem komu til landsins eftir langa veru í útlöndum voru skiljanlega ánægðir með að hitta sína nánustu í gær. 

„Við sáum það bæði sem vorum á Keflavíkurflugvelli í gær og sáum í fréttum að fólk var að faðmast þegar það kemur í Leifsstöð. Slíkt bara gengur ekki,“ segir Víðir. 

Alma Möller landlæknir segir þetta ekki eiga síst við um Íslendinga: 
„Því að við vitum að það er meiri hætta á smiti af því þeir eru í nánara sambandi við landsmenn heldur en ferðamennirnir. Og eins og sóttvarnalæknir nefndi þá stendur til að koma með leiðbeiningar annars vegar hvernig Íslendingar hegða sér í útlöndum og hins vegar þegar heim er komið.“

Fólk á að fara í nokkurs konar sóttkví þegar það kemur til landsins, fara á áfangastað og halda sig þar þangað til niðurstaða er komin. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Upplýsingafundurinn var haldinn í Katrínartúni í Reykjavík.

Níu þúsund flugsæti á dag - aðeins hægt að taka 2000 sýni

Páll Þórhallsson skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu sem haldið hefur utan um samhæfingu við opnun landamæranna sagði á fundinum í dag að sætaframboð í byrjun júlí á Keflavíkurflugvelli yrði um níu þúsund sæti á dag. Isavia getur stýrt umferð um völlinn tvær vikur fram í tímann. Útilokað er að afgreiða sýni úr níu þúsund farþegum en hægt er að sinna 2000 á dag. 

Áttu von á því að það myndist þarna flöskuháls?

„Það getur vel verið, það er verkefni fyrir Isavia og yfirvöld að stýra flæðinu til Íslands þannig að við förum ekki yfir þá tölu. Ef að sú tala verður eitthvað hærri þá þarf fólk að fara í sóttkví,“ segir Þórólfur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi