Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lánin nái til of fárra og skerði búsetufrelsi

16.06.2020 - 22:31
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Forsvarsfólk stjórnarandstöðunnar á Alþingi segir mörgu ábótavant í frumvarpi félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán til íbúðarkaupa. Lánin nái til of fárra og skerði búsetufrelsi. Ekki ríkir einhugur um frumvarpið innan stjórnarflokkanna.

Frumvarpi félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán er ætlað að auðvelda tekjulágu fólki að eignast sína fyrstu íbúð. Verði frumvarpið að lögum lánar ríkið tuttugu prósent af kaupverði vaxtalaust til tuttugu og fimm ára. Tekjumörk miðast við tekjur einstaklings undir 7,6 milljónum króna á ári og undir 10,6 milljónum króna hjá hjónum eða sambúðarfólki. Tekjumörkin hækka um 1,6 milljónir fyrir hvert barn eða ungmenni sem býr á heimilinu.

Forsvarsfólk stjórnarandstöðunnar segir marga vankanta á frumvarpinu. Of fáir eigi rétt á lánunum og þá sé ekki æskilegt að þau einskorðist við nýbyggingar.

„Þetta er auðvitað mikilvægt úrræði sem er þó búið að bíða alltof lengi eftir - í tvö ár. Frumvarpið er of þröngt. Í fyrsta lagi getur, til dæmis, barnafólk undir meðallaunum ekki nýtt sér úrræðið. Í öðru lagi nær þetta bara til nýbygginga sem setur fólk sem býr á svæðum þar sem markaðsvirði er lægra heldur en framleiðslukostnaður í óvissu,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, tekur í sama streng. „Mér finnst ekki til eftirbreytni að vera raunverulega að taka frá því fólki sem þarf á þessum úrræðum að halda frelsið til að velja sér búsetustað,“ segir hún.

Frumvarpið er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis. Samkvæmt heimildum er ekki einhugur um það innan stjórnarflokkanna og ólíklegt að hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins samþykki frumvarpið í óbreyttri mynd.

„Það er ansi bratt að koma með þetta fram svona á síðustu dögunum og ætlast til þess að velferðarnefndin afgreiði þetta vel fyrir þinglok. Ég átta mig ekki á því af hverju þetta er að koma svona seint fram því þetta er hluti af hinum svokölluðu lífskjarasamningum. Það vakna margar spurningar við þá staðreynd að þetta kemur svona seint. Við eigum eftir að fá þeim spurningum svarað hvort það séu tæknilegir örðugleikar sem liggja þar að baki eða hvort ástæðan sé sú að þetta hafi verið umdeilt,“ segir Hanna.