Forsetakosningar á auðskildu máli

16.06.2020 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það verða forsetakosningar 27. júní. Tveir menn bjóða sig fram til forseta. Það eru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Guðmundur Franklín Jónsson. Hér er hægt að lesa um þá.
Guðmundur Franklín Jónsson

Guðmundur Franklín Jónsson er forsetaframbjóðandi. Hann safnaði undirskriftum frá nógu mörgu fólki sem vill styðja hann til að verða forseti og getur þess vegna boðið sig fram.

Hann barðist gegn þriðja orkupakkanum, sem Alþingi hefur nú samþykkt. Hann stofnaði líka stjórnmálaflokk sem heitir Hægri grænir.

Hann vill ananas á pizzu.

Guðmundur Franklín er 56 ára, fæddur í Reykjavík 31. október 1963. Hann á þrjú börn sem heita Árni Franklín, Veronika og Vigdís Lilja.

Hann gekk í Verzlunarskóla Íslands og Fjölbrautaskólann við Ármúla. Svo fór hann til Bandaríkjanna og lærði viðskiptafræði og hagfræði í háskóla. Seinna var hann verðbréfamiðlari í Bandaríkjunum.

Guðmundur Franklín bjó í borginni Prag í Tékklandi í mörg ár. Hann rak þar hótel og lærði stjórnmálafræði í háskóla. Hann er líka leiðsögumaður úr Ferðamálaskóla Íslands. Núna er hann hótelstjóri á Borgundarhólmi í Danmörku.

Fyrir fjórum árum ætlaði Guðmundur Franklín að bjóða sig fram til forseta. Hann hætti við það þegar Ólafur Ragnar Grímsson ákvað að bjóða sig fram til endurkjörs. Ólafur Ragnar dró síðan framboð sitt til baka.

Guðmundur Franklín vill að forsetinn sé virkari í stjórnmálum en nú er. Hann vill til dæmis að forsetinn nýti málskotsrétt sinn í umdeildum málum. Það þýðir að forsetinn má neita að skrifa undir lög sem eru umdeild en Alþingi hefur samþykkt. Ef forsetinn neitar að skrifa undir lög kýs þjóðin um þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Aftur efst

Guðni Th. Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson er forseti Íslands. Hann gefur kost á sér til endurkjörs. Guðni er sjötti forsetinn á Íslandi og var kosinn í embætti árið 2016.

Eftir að Guðni varð forseti varð forsetaembættið aftur líkt því sem var þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti. Þau vilja bæði að forsetinn sé sameiningartákn þjóðarinnar en skipti sér ekki mikið af stjórnmálum. Guðni hefur haldið áfram að fara með krökkunum sínum á íþróttamót og hjóla með þeim í skólann þótt hann hafi orðið forseti.

Hann vill alls ekki hafa ananas á pizzunni sinni.

Guðni er 51 árs. Hann fæddist í Reykjavík 26. júní 1968. Hann er giftur Elizu Reid, sem er fædd í Kanada, og þau eiga fjögur börn sem heita Duncan Tindur, Donald Gunnar, Sæþór Peter og Edda Margrét. Guðni á líka eina dóttur sem heitir Rut með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur.

Guðni gekk í Menntaskólann í Reykjavík. Hann lærði sagnfræði og stjórnmálafræði í háskólum í Bretlandi og á Íslandi. Hann er með doktorspróf í sagnfræði. Guðni hefur kennt í háskólum og unnið í afleysingum á fréttastofu RÚV. Hann var prófessor í Háskóla Íslands áður en hann varð forseti.

Á sama tíma og Guðni varð forseti voru laun forsetans hækkuð. Guðni vildi ekki launahækkunina en gat ekki afþakkað hana. Hann ákvað þess vegna að gefa mismuninn til góðgerðarmála og hefur gert það allan tímann sem hann hefur verið forseti.

Aftur efst

Spurt og svarað um forsetakosningarnar

Hvar kýs ég?

Forsetakosningarnar fara fram á tilgreindum kjörstöðum á kjördag. Kjörstaðir eru ekki allir opnaðir á sama tíma og þeim er ekki lokað á sama tíma. Það er þess vegna mikilvægt að kjósendur kynni sér tímanlega hvar þeir kjósa. Hægt er að fletta sínum kjörstað upp á vef Þjóðskrár Íslands með því að slá inn kennitölu.

Kjörstöðum er skipt í kjördeildir. Leiðbeiningar um í hvaða kjördeild viðkomandi kýs er að finna á kjörstað. Í mörgum tilfellum eru þær upplýsingar líka á vef Þjóðskrár.

Á kjörstað verður að framvísa gildum skilríkjum til þess að fá kjörseðil.

Hvenær eru kjörstaðir opnir?

Kjörstaðir eru almennt opnir frá klukkan 9 árdegis til klukkan 22 að kvöldi kjördags. Einstaka kjörstjórnir geta ákveðið að byrja síðar eða hætta fyrr. Sveitarfélög eiga að auglýsa þessa kjörstaði og opnunartíma þeirra.

Hvernig kýs ég utan kjörfundar?

Hægt er að kjósa utan kjörfundar, þ.e. ekki á kjördag. Innanlands fer utankjörfundaratkvæðagreiðsla fram hjá sýslumönnum um allt land. Hægt er að finna upplýsingar um kjörstaði utan kjörfundar á vefsíðum sýslumanna. Erlendis er hægt að greiða atkvæði á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða hjá kjörræðismanni. Sýslumenn hafa umsjón með atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á sjúkrahúsum, dvalarheimilum og öðrum stöðum þar sem kjósendur eru til meðferðar eða eru vistmenn. Þar fer atkvæðagreiðsla fram sem næst kjördegi.

Þeir sem kjósa utan kjörfundar þurfa yfirleitt að annast það sjálfir og standa straum af sendingu atkvæðisins í sitt kjördæmi. Ef kosið er utan kjörfundar í eigin kjördæmi er yfirleitt hægt að leggja atkvæði beint í kjörkassa. Nánari upplýsingar má finna hér.

Get ég kosið?

Allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri á kjördag og eru með lögheimili á Íslandi mega greiða atkvæði kosningunum.

Íslenskir ríkisborgarar sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda eftir 1. desember 2011 og eru orðnir 18 ára geta líka kosið.

Nánari upplýsingar um kjörgengi í forsetakosningum má finna á vef Stjórnarráðsins hér.

Hvenær liggja niðurstöður kosninganna fyrir?

Niðurstöður forsetakosninganna verða kynntar eftir kjördæmunum sex á Íslandi. Þau eru þau sömu og í Alþingiskosningum; Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmi norður og suður. Nánari upplýsingar um hvaða sveitarfélög teljast til hver kjördæmis má finna hér.

Gera má ráð fyrir að fyrstu tölur úr talningu atkvæða liggi fyrir um leið og kjörstöðum verður lokað klukkan 22. Niðurstaða kosninganna sjálfra verður ekki endanlega ljós fyrr en öll greidd atkvæði hafa verið talin. Að öllum líkindum verður það snemma að morgni sunnudagsins 28. júní.

Hvers vegna eru kosningarnar haldnar?

Forsetakosningar eru haldnar á fjögurra ára fresti ef fleiri en eitt gilt framboð berst kjörstjórnum í öllum kjördæmum. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands tilkynnti í áramótaávarpi sínu að hann sæktist eftir endurkjöri. Guðmundur Franklín Jónsson ákvað að bjóða sig einnig fram.

Ef aðeins eitt gilt framboð berst telst frambjóðandi sjálfkjörinn. Sitjandi forseti hefur verið sjálfkjörinn sex sinnum. Forsetakosningar hafa verið haldnar átta sinnum. Kosningarnar í ár eru þær níundu sem haldnar eru. Hér má finna yfirlit yfir forsetakosningar á Íslandi frá því að lýðveldið var stofnað árið 1944.

Hvernig verður kosningavaka RÚV?

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Bogi Ágústsson leiða kosningavöku fréttastofu í sjónvarpi sem hefst þegar kjörstöðum er lokað klukkan 22. Þar verða nýjustu tölur birtar og rýndar um leið og þær berast og rætt verður við góða gesti. Fréttamenn verða á ferð um landið og fanga stemmninguna og þegar úrslit liggja að mestu ljós fyrir fær fréttastofan viðbrögð frambjóðenda við þeim.

Ég kaus utan kjörfundar. Má ég kjósa á kjördag?

Já, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þótt hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæði hans þá ekki til greina við kosninguna.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi