Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bjargvætturinn enn ófundinn 

16.06.2020 - 07:15
Innlent · Facebook · Leit
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Rósmary Lillýjardóttir Midjord leitar enn að manni sem hún auglýsti eftir á Facebook fyrir helgi. Maðurinn aðstoðaði móður hennar þegar amma hennar fór í hjartastopp í bíl á Dalvegi í Kópavogi þann 10. júní síðastliðinn.

Rúmlega sex hundruð notendur Facebook hafa deilt færslunni til að aðstoða við leitina. 

Móðir Rósmary og amma voru staddar í bíl þegar móðir hennar þurfti skyndilega að koma ömmu hennar út úr bílnum til að hefja hjartahnoð. Samkvæmt færslu Rósmary var maðurinn sem hún leitar að sá eini sem stoppaði til að leggja þeim lið.  

Í samtali við fréttastofu segir Rósmary það sennilega hafa bjargað lífi ömmu hennar hve hraðar hendur móðir hennar og maðurinn höfðu í sameiningu. Hún segist standa í þvílíkri þakkarskuld við manninn og að móðir hennar hefði aldrei getað þetta án hans. Hann hafi hlúð að ömmunni á meðan móðir Rósmary hnoðaði hana og beið eftir sjúkrabíl. Þá kemur fram að yngri systir Rósmary hafi verið viðstödd og að maðurinn hafi „hjálpað henni rosalega mikið með áfallið.“ 

Rósmary segir ömmu sína alla að koma til eftir áfallið.  Fjölskyldunni sé mjög í mun að finna manninn og „þakka honum fyrir allt því hann er hetja!“

Uppfært 17. júní, kl. 16:08: 

Maðurinn er fundinn og fjölskyldan hefur þakkað honum fyrir hjálpina.

 

 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV