Bandaríkin: Enn kallað eftir umbótum í löggæslu

16.06.2020 - 02:41
epa08486900 Protesters during the ‘March on Georgia’ sponsored by the Georgia NAACP in Atlanta, Georgia, USA, 15 June 2020. The Georgia General Assembly resumes their coronavirus-suspended session and activists are demanding lawmakers pass criminal justice reforms, repeal citizens arrest, ensure voting rights and end police brutality.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Borgarstjórinn í Atlanta, Keisha Lance Bottoms, kallaði í dag eftir umbótum í lögregluliði borgarinnar. Það gerist í kjölfar þess að mótmæli gegn kynþáttahyggju blossuðu að nýju upp í borginni eftir að lögreglumaður skaut þeldökkan mann til bana á föstudag.

Borgarstjórinn segir lögreglu eiga að gæta borgaranna en ekki fara með hernaði gegn þeim.

Hún segir að hinn 27 ára gamli Rayshard Brooks hafi raunverulega verið myrtur en þannig hefði ekki þurft að fara. Borgarstjóri kveðst bæði hafa reiðst og fyllst sorg vegna málsins.

Þúsundir hafa streymt út á götur Atlantaborgar til að láta í ljós andúð sína vegna dauða Brooks.

Forsetatilskipun væntanleg

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur í hyggju að undirrita forsetatilskipun á fimmtudag sem á að stuðla að betri vinnubrögðum innan lögreglu. Hann segir drápið á Brooks enda vera óhugnanlegan atburð. Tilskipunin kann þó að falla í skuggann af kröfum um algera umbyltingu á skipulagi löggæslumála í landinu.

Skemmst er að minnast hugmynda borgarstjórnar Minneapolis um að leggja lögregluna hreinlega niður í núverandi mynd.

Borgarstjóri Atlanta útlistaði hugmyndir um umbætur á ríkjandi vinnubrögðum löggæslunnar, vopnaburði hennar og að lögreglumönnum bæri að grípa inn í hegðunarbrot félaga sinna.

Endurskoðun lögreglumála er einnig væntanleg í Chicago, New York og í nokkrum stærstu borgum Kaliforníu-ríkis. Bandaríkjaforseti segir umræðuna nú snúast um grundvallaratriði, lög og reglu, réttlæti og öryggi.

Draga skuli úr vopnaburði lögreglu

Andlát Georges Floyd og Rayshard Brooks í höndum lögreglu hafa magnað upp kröfur um að henni verði gert að draga mjög úr beitingu vopna. Það er viðamikið verkefni enda er um 18.000 lögregludeildir að finna um gjörvöll Bandaríkin.

Bottoms borgarstjóri Atlanta tekur undir að verkefnið sé umfangsmikið, en nú sé svo komið að samfélagið megi engan tíma missa.

Lögreglumanninum sem varð Brooks að bana var vikið frá störfum og lögreglustjóri borgarinnar sagði af sér nokkrum klukkustundum eftir atburðinn.

Saksóknari í Georgíu veltir nú fyrir sér að sækja lögreglumanninn til saka enda sé engan veginn hægt að réttlæta það sem gerðist með því að honum hafi staðið ógn af Brooks.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi