Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Afkoma sveitarfélagsins olli miklum vonbrigðum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RUV
Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðsins í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir árið í fyrra var neikvæð um 36,5 milljónir. Mismunurinn frá því í fyrra nemur um 150 milljónum.

Björgvin Skafti Bjarnason er oddviti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps. „Þetta kom mér á óvart,“ segir Björgvin og segir sveitarstjórnina almennt ekki hafa verið upplýsta um raunverulega stöðu sveitarfélagsins.

Bæta þurfi innra eftirlit

„Þetta á sér að mestu leyti skýringar nema að við hefðum viljað vita þetta fyrr.“ Björgvin segir að bæta hefði mátt innra eftirlitið. „Þetta hefur verið í góðum gír í mörg ár svo við sofnuðum svolítið á verðinum, svo bregðumst við ekki nógu fljótt við að nýta þau tæki sem við höfðum til eftirlits.“

Björgvin segir að versnandi staða sveitarfélagsins skrifist á sambland af minnkandi tekjum og hækkandi kostnaði og nefnir sem dæmi minnkandi útsvarstekjur. Íbúum í sveitarfélaginu hefur fækkað umtalsvert sem rekja má meðal annars til þess að virkjanaframkvæmdum við Búrfell 2, nýja Búrfellsvirkjun, er lokið.

Útgjöld vegna sorphirðu hafi aukist líkt og hjá flestum sveitarfélögum þar sem keyra þarf með sorpið lengri vegalengdir en áður. Sveitarfélagið hafi einnig ráðist í fjárfestingu á innviðum.

Kristófer A. Tómasson, hefur verið sveitarstjóri síðan í mars 2012 en á sveitarstjórnarfundi í síðustu viku var beiðni hans um að fara í leyfi af persónulegum ástæðum samþykkt. Bjarni Ásbjörnsson verður sveitarstjóri í hans stað næstu þrjá mánuði. 

Haft er eftir Kristófer í bókun af síðasta sveitarstjórnarfundi:

„Það eru mér mikil vonbrigði að rekstrarniðurstaða Skeiða- og Gnúpverjahrepps árið 2019 skuli vera svo slæm sem raun ber vitni [...] Aukning í útgjöldum er í sumum liðum langt um fram það sem ætlað var. Sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins kann vel að vera að ég hefði mátt haga mínum störfum við fjármál sveitarfélagsins á síðasta ári í einhverjum tilfellum með öðrum hætti svo betri rekstarniðurstaða hefði hlotist af.“

„Ljóst er að afkoma sveitarfélagsins fyrir árið 2019 veldur miklum vonbrigðum og ljóst að töluverðs aðhalds í rekstri er þörf í náinni framtíð," segir í bókun minnihlutans frá  fundinum. 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV