Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Á Sviss sinn eigin George Floyd?

16.06.2020 - 07:07
epa08483401 People demonstrate against racism in light of  the recent death of George Floyd in Lausanne, Switzerland, 13 June 2020.  EPA-EFE/JEAN-CHRISTOPHE BOTT
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Nöturlegur dauðdagi Georges Floyd hefur haft óhemjumikil áhrif á fólk út um allan heim. Alda mótmæla og meðfylgjandi hugarfarsbreytinga hefur skekið veröldina. Sviss, landið sem er frægast fyrir bankamenn og gauksklukkur, hefur ekki farið varhluta af því.

Óþægileg líkindi við mál Floyds

Fyrir tveimur árum lést 37 ára gamall maður frá Nígeríu í svissnesku borginni Lausanne en atburðarásin minnir óþægilega á það sem gerðist í Minneapolis 25. maí síðastliðinn.

Andlát Mikes Ben Peter fékk nánast enga athygli utan Lausanne þar sem lögregluofbeldi var mótmælt um skamma hríð. Atburðarás síðustu vikna hefur vakið svissnesk yfirvöld af værum blundi og þröngvað þeim til að hefja að nýju rannsókn á skapadægri Nígeríumannsins.

Ben Peter beið bana í harkalegri handtöku eftir að hann hafði hafnað því að lögregla leitaði á honum. Honum var skellt til jarðar að sögn Simon Ntah lögmanns fjölskyldu hans.

Ben var umkringdur sex lögreglumönnum sem létu hann liggja á grúfu í nokkrar mínútur, þannig að hann átti erfitt með andardrátt. Hjartaáfall dró Ben Peter til bana á sjúkrahúsi nokkrum stundum síðar.

Lögmaðurinn kveður mikil líkindi með málum Floyds og Bens Peter. Hann segir þó að ofbeldið sem Nígeríumaðurinn mátti þola áður en hann var felldur til jarðar hafi verið meira.

Aðalmunurinn liggi þó í því að atvikið í Lausanne var ekki tekið upp.

Þáttur réttarmeinafræðinganna

Hrein tilviljun varð til þess að réttarmeinarfræðingarnir sem krufðu Ben Peter voru yfirheyrðir um niðurstöður sínar örfáum klukkustundum eftir að George Floyd lést handan Atlantshafsins.

Líklegt er talið að málið verði dómtekið í árslok eða á næsta ári. Niðurstaða réttarmeinafræðinganna er að nokkrir samverkandi þættir hafi leitt til þess að Ben Peter andaðist; mikið álag, hjartavandamál og ofþyngd.

Þeir gátu þó ekki fullyrt hvaða áhrif það hafði að hann var látinn liggja lengi á grúfu.

Viðbrögð við úrskurði þeirra voru þegar afar hörð, dagblöð fullyrtu að landið ætti þarna sinn eigin Floyd og mótmælendur á götum úti tóku að hrópa nöfn beggja mannanna í einum kór.

Samanburði mótmælt

Lögmaðurinn Odile Pelet sem kemur fram fyrir hönd eins lögreglumannanna andæfir öllum samanburði og leggur ríka áherslu á að krufning hafi skorið úr um að Ben Peter kafnaði ekki.

Hún segir hreinlega útilokað að líkja málunum saman; „Enginn lögreglumannanna þrýsti hné sínu að hálsi Bens Peter,” sagði hún.  Að sögn talsmanns lögreglu í Lausanne er slíkt atferli enda stranglega bannað.

Lögmaðurinn Ntah fullyrðir að líkt og þegar MeToo byltingin hófst sé nú að hefjast víðfeðm hugarfarfsbreyting sem beinist gegn inngrónum rasisma innan lögreglunnar.

Amnesty International og fleiri lýsa hins vegar yfir að ekkert bendi til að skipulagt kynþáttaníð þekkist innan lögreglunnar í Sviss