Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stýrihópur kemur að þemavali NEPR

15.06.2020 - 09:44
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Stýrihópur sem fjármálaráðuneyti Norðurlandanna eiga fulltrúa í tekur þátt í að velja þema fyrir tímaritið NEPR, en að öðru leyti eru ritstjórnarlegar ákvarðanir og stjórn á efnistökum á hendi ritstjóra tímaritsins. Þetta segir Lars Calmfors, fráfarandi ritstjóri tímaritsins, í skriflegu svari til fréttastofu.   

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í viðtali við fréttastofu á fimmtudagskvöld að fjármálaráðuneyti Norðurlandanna ákvæðu bæði ritstjórnina og efnistök tímaritsins: „Það eru fjármálaráðuneytin sem ákveða ritstjórnina og efnistök í þetta blað“. Þá sagði hann að samstarf um efnistök í blaðinu og annað þess háttar milli fjármálaráðuneytisins og Þorvaldar, undir hans eigin stjórn, væri „harla ólíklegt miðað við hans yfirlýstu skoðanir og hans afstöðu til ríkisstjórnarinnar.“ 
 
Tímaritið NEPR er gefið út af Norrænu ráðherranefndinni í samstarfi við rannsóknarstofnunina Nordregio í Stokkhólmi. Markmiðið með tímaritinu er að gera nýjustu rannsóknir í hagfræði aðgengilegar ráðamönnum og almenningi. Þá er markmiðið einnig að stuðla að miðlun á þekkingu um hagstjórn milli Norðurlandanna. 
 
Eitt blað er gefið út á hverju ári, og sérstakt þema einkennir hvert blað. Lars segir að þema hvers árs sé valið með þeim hætti að ritstjóri kemur með tillögur að mögulegum þemum. Tillögurnar séu ræddar á fundi stýrihóps, sem samanstendur af fimm fulltrúum frá fjármálaráðuneytum Norðurlandanna, yfirmanni Nordregio, fulltrúa Norrænu ráðherranefndarinnar og ritstjóra tímaritsins. Stýrihópurinn tekur í kjölfarið ákvörðun um þema hvers blaðs. Ritstjóri hefur svo það hlutverk að velja höfunda að greinum, sem eru alltaf fræðimenn. Hann velur að sama skapi þá sem ritrýna greinarnar.  
 
Samkvæmt svörum Lars hefst þá hefðbundin samvinna höfunda og ritrýna, og ritstjórar gera svo athugasemdir við greinar og aðstoða höfunda m.a. við að tryggja að þær séu skýrar og skiljanlegar almenningi. Hvorki stýrihópurinn né ráðuneytin sjálf hafa nokkuð að segja um efnistök í fræðigreinunum að þessu leyti. 

Bjarni mætir fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á opnum fundi kl. 10:00 í dag. Rúv.is verður með beint streymi frá fundinum.