Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skimun hefst á Keflavíkurflugvelli í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Skimun fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli hefst í dag. Tíu sýnatökubásar hafa verið settir upp á flugvellinum. Farþegar hafa val milli þess að fara í sýnatöku og að fara í tveggja vikna sóttkví.

Sýnatakan verður gjaldfrjáls fram til 1. júlí næstkomandi en frá þeim tíma greiða ferðamenn 15 þúsund krónur fyrir hvert sýni. Farþegar skulu fylla út forskráningarform áður en þeir eru skimaðir, annað hvort á covid.is eða í básum á flugvellinum. Gert er ráð fyrir að farþegar fái niðurstöðu úr skimun fimm klukkustundum eftir sýnatökuna.

Átta flug áætluð til landsins 

Áætlað er að átta flugvélar lendi á Keflavíkurflugvelli í dag. Fyrsta flugvélin lendir klukkan 10:10. Hún er á vegum Wizz Air og kemur frá London Luton. Þar að auki lenda flugvélar flugfélaganna Icelandair, SAS og Atlantic Airways. Flugin koma frá Kaupmannahöfn, Osló, Vagar, Frankfurt og Stokkhólmi. 

Um helgina fóru fram æfingar fyrir móttöku farþega og sýnatöku á Keflavíkurflugvelli. Þá var skimunaraðstaðan prófuð og einnig tölvukerfið sem verður notað til að halda utan um farþegana. Að sögn almannavarna og landlæknis gengu æfingar vel og 40 manns eru sérþjálfaðir til að sinna skimuninni. 

500 manns mega koma saman

Nú á miðnætti urðu einnig breytingar á takmörkunum á fjölda fólks á samkomum. Nú er 500 manns heimilt að koma saman, en ekki aðeins 200 manns. Takmarkanirnar gilda bæði í opinberum rýmum og einkarýmum og enn er fólk hvatt til að halda tveggja metra fjarlægð.  

Þá er enn óheimilt að hafa veitingastaði með vínveitingaleyfi og spilasali opna lengur en klukkan 23:00.