Piparkorn – Kryddlögur

Mynd: Piparkorn / Piparkorn

Piparkorn – Kryddlögur

15.06.2020 - 14:32

Höfundar

Kryddlögur er fyrsta plata hljómsveitarinnar Piparkorn. Hún er jazzhljómsveit að upplagi en allir liðsmenn hennar hafa stundað ryþmískt tónlistarnám. Sveitin hefur komið fram og spilað standard jazztónlist frá 2017 en platan kom út 21. maí.

Kryddlögur inniheldur átta jazz- og jazz-popplög í fjölbreyttari kantinum. Fimm laganna eru sungin, þrjú á íslensku og tvö á ensku, en restin er eingöngu leikin á hljóðfæri.

Magnús Þór Sveinsson og María Gyða Pétursdóttir semja flest laganna. María Gyða semur einnig texta og laglínur eftir að Magnús hefur sett saman hljómana og heildaryfirbragð laganna. Allir í sveitinni leggja þó sitt til laganna og setja svip á þau.

Platan er tekin upp í Stúdíói Sýrlandi undir handleiðslu Þorsteins Gunnars Friðrikssonar. Platan er lokaverkefni hans í hljóðtækni í Tækniskólanum. Steini sá um eftirvinnslu og hljóðblöndun og Jóhannes Gauti Óttarsson sá um sönginn.

Hljómsveitina skipa þau María Gyða Pétursdóttir söngkona, Magnús Þór Sveinsson á píanó og hljómborð, Guðjón Steinn Skúlason á saxófón, Gunnar Hinrik Hafsteinsson spila á gítar og bassa, Þorsteinn Jónsson á trommur og Davíð Snær Sveinsson á bassa.

Kryddlögur, frá hljómsveitinni Piparkorni, er plata vikunnar á Rás 2 og hægt að hlusta á hana alla ásamt kynningum sveitarinnar í spilara hér að ofan og á Rás 2 eftir tíu fréttir í kvöld.

Piparkorn - Kryddlögur