Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Norræna lögð af stað án sýnatökufólks

15.06.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Norræna er nýlögð af stað frá Þórshöfn í Færeyjum til Íslands með 155 farþega. Flugvél átti að flytja sjö manna teymi til Færeyja í morgun til að taka sýni á leiðinni til landsins en hætta þurfti við meðal annars vegna þoku ytra.

Vél Landhelgisgæslunnar TF-SIF átti að flytja þrjá heilbrigðisstarfsmenn frá Reykjavík og taka upp fjóra til viðbótar á Egilsstöðum. Teymið átti að fara um borð í Norrænu í Færeyjum og ljúka sýnatöku áður en ferjan kæmi til Seyðisfjarðar. Á ellefta tímanum í morgun var hætt við flugið og ákveðið að virkja plan b; að taka sýnin um borð í ferjunni í Seyðisfjarðarhöfn í fyrramálið.

Færeyingar undanþegnir

Ekki þarf að taka sýni úr öllum farþegunum því 69 þeirra eru Færeyingar og því undanþegnir sýnatöku. Heilbrigðisstarfsfólk gerir ráð fyrir að vera rúman klukkutíma að taka sýni úr hinum farþegunum 86. Aðstaða til þess verður sett upp í einum af matsölum ferjunnar og sjá átta starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands um verkið í þremur teymum. 

Mikilvægt að nýta siglingatímann eftir að ferjan fer á sumaráætlun

Flugferðin með sýnatökufólk til Færeyja var líka hugsuð til að afla reynslu áður en ferjan fer á sumaráætlun í byrjun júlí. Þá stóreykst farþegafjöldinn en fimmtudaginn 2. júlí eru yfir 600 farþegar væntanlegir og enn fleiri eftir það og stoppar ferjan aðeins í tvær og hálfa klukkustund á Seyðisfirði. Um leið verður enn mikilvægara að nýta siglingatímann í sýnatökuna til að koma sýnum samdægurs til greiningar í Reykjavík. 

Fram kemur í minnisblaði aðgerðastjórnar á Austurlandi að illmögulegt verði að taka sýnin á Seyðisfirði eftir að Norræna fer á sumaráætlun. Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA, segir unnið að því að finna bestu leiðina til að láta það ganga ef flug skyldi bregðast eins og það gerði í morgun. Þurfi að grípa til sýnatöku á Seyðisfirði gæti það tafið för skipsins.

Tölur um farþegafjölda hafa verið uppfærðar samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Smyril Line