Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Breyttu ferlum strax í dag til að flýta greiningu

Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir / RÚV
Einum af um 900 farþegum sem komið hafa til landsins í dag eftir að hætt var að krefjast þess að fólk færi í sóttkví við komuna var sendur aftur úr landi. Sá var frá Bandaríkjunum og mátti því ekki koma hingað samkvæmt þeim sóttvarnarreglum sem eru í gangi. Engar upplýsingar hafa fengist um að nokkur hafi verið smitaður við komuna. Yfirlögregluþjónn telur að hann væri búinn að fá upplýsingar um það ef einhver hefði greinst með smit. Ferlum var breytt strax í dag til að flýta greiningu.

„Þetta gekk bara vel. Það fóru um 900 manns í gegn hjá okkur í dag og þetta gekk stóráfallalaust,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, í Speglinum. „Hann sagði að sýnatakan hefði gengið hraðar fyrir sig en ráð hefði verið fyrir gert. „Við sjáum að sum flugfélögin sem eru að koma hérna hafa ekki ýtt mikið á sína farþega að forskrá sig, og aðeins með misvísandi upplýsingar til síns fólks Icelandair aftur á móti gekk miklu harðar fram í því að ýta því að. Sú bið sem farþegar hafa kannski upplifað á flugvellinum í dag sneri fyrst og fremst að því að þeir voru að skrá sig í þau form sem þarf til að fá að fara í sýnatökuna.“

Blandaður hópur en margir Íslendingar

Víðir sagði að blandaður hópur hefði komið til landsins í dag. Þar hefðu þó verið töluvert margir Íslendingar sem hefðu líklega viljað losna við að lenda í sóttkví.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Öllum nema einum var hleypt í land. „Það var einum einstaklingi vísað frá í morgun sem var Bandaríkjamaður sem hafði ekki heimild til að koma inn vegna þeirra lokana sem eru í gangi gegn Bandaríkjunum. Hann þurfti að fara aftur til Englands,“ sagði Víðir.

„Þetta gekk alveg eins og í sögu“

Sigrún Davíðsdóttir fréttamaður kom til Íslands í dag og var viðmælandi í Speglinum. Hún sagði að það hefði gengið vel hjá sér. Hins vegar væri ljóst að erlendu flugfélögin gæfu misvísandi upplýsingar. Þannig hefði hún fengið rangar upplýsingar hjá erlendu flugfélagi sem hún flaug með. Þegar á flugvöllinn var komið gekk þetta vel fyrir sig. „Þetta gekk alveg eins og í sögu. Það var enginn vandi, það var engin bið til þess að tala um. Þetta gekk eins og smurt. Sýnatakan var auðveld. Maður fór fljótt í gegnum flugvöllinn.“

Fólk á að halda sig til hlés þar til það fær staðfestingu í smáskilaboðum í símann um hvort að sýnir var jákvætt eða neikvætt. „Ég fékk upplýsingar núna rétt fyrir klukkan sex og var þá búin að bíða í allan dag. Það var sérstök tilfinning að fá þetta SMS. Það var ótrúlegur léttir,“ sagði Sigrún. Þá hafði hún beðið í um átta klukkustundir. Litlu munaði að hún kæmist ekki í hljóðstofu til að taka þátt í útsendingunni þar sem hún mátti ekki umgangast fólk fyrr en ljóst væri hver niðurstaðan væri.

Átta tíma bið - en verður styttri

„Það er heldur lengra en við vorum að vonast til,“ sagði Víðir um átta tíma bið eftir niðurstöðum. Skýringin er sú að þegar fyrstu flugvélar dagsins komu var sýnum safnað saman og þau keyrð til Reykjavíkur í einu lagi. Seinni flugvélin kom klukkutíma á eftir þeirri fyrri og tók öllu lengri tíma að safna saman sýnum úr farþegum hennar vegna þess hversu margir þeirra voru ekki forskráðir. „Við sjáum það strax að við vildum breyta því skipulagi og því var breytt núna seinni partinn. Sýni úr hverri flugvél eru keyrð til Reykjavíkur.“

Víðir hefur ekki upplýsingar um að neinn hafi greinst með smit í dag. „Ég hugsa að það væri búið að láta mig vita ef svo væri.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunútgáfan
Sigrún Davíðsdóttir.

Lögfræðingar sóttvarnalæknis kanna mál níu Rúmena

Níu einstaklingar sem komu til landsins í síðustu viku eru í sóttkví og tveir að auki í einangrun. Þrír þeirra voru handteknir vegna gruns um þjófnaðarmál og greindust tveir þeirra með COVID-19 veikina. Víðir sagði að heilbrigðisstarfsfólk fylgist vel með þeim smituðu. „Lögfræðingar sóttvarnalæknis eru að vinna í málum hinna. Þetta tengist brotum á sóttkví. Það þarf að fara í gegnum þau mál með sóttvarnalækni. Þetta er ákveðin þvingunaraðgerð að halda fólki í gæslu í sóttvarnarhúsi og þar af leiðandi þarf á einhverjum tímapunkti að fara með fólk fyrir dóm ef það unir því ekki. Það hefur ekki reynt á það. Fólkið hefur verið ágætlega samvinnufúst í dag með það að halda kyrru fyrir í húsnæðinu.“

Mega neita fólki um landgöngu

Lögreglan fékk heimild til áhættumats á einstaklingum samhliða því að sýnataka var tekin upp á landamærunum. Lögreglan getur þá metið hvort einstaklingur muni hlýta sóttvarnarráðstöfunum eða ekki. Ef ástæða er til að ætla að einstaklingur virði ekki reglur er heimilt að senda hann úr landi. Víðir sagði í Speglinum að þessari heimild verði ekki beitt af neinni léttúð.

„Við vissum það svo sem ekki þegar þeir komu til landsins en það er alveg ljóst að þeir dvöldu aldrei á því heimilisfangi sem þeir gáfu upp sem dvalarstað í sóttkvínni. Miðað við það hefur það væntanlega verið ásetningur þeirra að fara ekkert eftir þeim reglum,“ sagði Víðir um Rúmenana. Hann sagði að allan tímann sem sóttkvíarúrræðin voru í gildi hafi borist fjöldi ábendinga vegna hugsanlegra brota á reglum um sóttkví. Hann sagði að líklega hefðu yfir 200 slík mál verið skoðuð. Í fæstum tilfellum áttu grunsemdirnar við rök að styðjast.