Boris: „Látið Churchill í friði"

15.06.2020 - 06:29
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Ákvörðun Borisar Johnson forsætisráðherra Bretlands um að koma á sérstakri nefnd sem ætlað er að taka á öllum hliðum ranglætis kemur í kjölfar útbreiddra mótmæla gegn kynþáttamisrétti þar í landi.

Johnson ritar grein sem birtist í Telegraph í dag. Þar segir hann að þrátt fyrir góðan árangur í baráttunni gegn rasisma bæri nú að takast á við raunverulega meginþætti hans fremur en táknrænar birtingarmyndir.

Horfast þurfi í augu við misréttið þar sem það birtist á vinnumarkaði, í heilsufari, innan háskólanna og í öllum öðrum athöfnum hins daglega lífs.

Johnson stingur upp á að í stað þess að eldri styttur séu felldar af stalli væru fleiri reistar því fólki sem núlifandi kynslóð álítur verðugt þess. Þar vísar hann til þeirrar kröfu að styttur og höggmyndir verði fjarlægðar í ljósi þess að fyrirmyndir þeirra hafi átt þátt í að móta nýlendustefnu fyrri tíðar.

Hafi jafnvel verið harðsvíraðir rasistar sem stunduðu þrælasölu, þrælahald og útrýmingu frumbyggja um veröld víða. Allmörgum höggmyndum hefur verið velt af stalli eða þær skemmdar en Johnson krefst þess að bronsstyttan fræga af Winston Churchill fyrir framan Westminster fái að standa óhögguð.

Í hans huga hafi Churchill verið hetja en aðrir hafa fullyrt að hann hafi í raun verið nýlenduherra og rasisti af gamla skólanum.

Johnson sjálfur var sakaður um rasisma árið 2002 eftir að hafa notað niðrandi orðfæri um þeldökka í blaðagrein.

Hann skrifaði bókina The Churchill Factor. How One Man Made History, eina af ótalmörgum ævisögum þessa forvera síns.

Forsætisráðherrann fordæmir þó þau hundruð mótmælenda, aðallega hvíta karlmenn, sem söfnuðust saman við styttuna til „verndar” henni á dögunum.

„Við getum ekki látið dragast inn í endalausar rökræður um hvort velþekkt manneskja liðins tíma hafi verið nægilega hreinlynd og rétthugsandi til að mega vera sýnileg í samtímanum.”

Í ljósi þess segir Johnson að samtalið þurfi að snúast um samtímann í stað þess að rembast við að endurskrifa fortíðina.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi