Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Kjörið tækifæri að ferðast til Íslands“

14.06.2020 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Tobias Kabat, 22 ára Dani, verður í hópi þeirra sem koma til Íslands á morgun þegar reglur um komur til landsins verða rýmkaðar. Hann var á leiðinni í ferðalag til Ástralíu og Nýja-Sjálands þegar öllu var skellt í lás vegna COVID-19 og stökk á tækifærið þegar forsætisráðherra Danmerkur tilkynnti að Danir gætu farið til Noregs, Þýskalands eða Íslands.

Fyrir ári síðan hefði verið hlegið ef einhverjum hefði þótt það fréttnæmt að danskur ferðamaður ætlaði að koma til Íslands um miðjan júní. Í fyrra komu 173 þúsund ferðamenn til landsins í júní.

Það segir því kannski sitt um stöðu mála að efsta fréttin á vef DR síðdegis í dag fjallaði einmitt um það - danskan ferðamann á leiðinni til Íslands. 

Hann heitir Tobias Kabat, hefur ánægju af því að vera úti í náttúrunni og ferðast en vill helst ekki vera þar sem margir ferðamenn eru. „Þess vegna er þetta fullkominn tímapunktur að ferðast til Íslands. Það eiga ekki eftir að koma mörg svona tækifæri aftur,“ segir Tobias í stuttu spjalli við fréttastofu RÚV.  

Það er ekki búist við neinu fjölmenni á Keflavíkurflugvelli á morgun, um 600 farþegum og meirihluti þeirra eru Íslendingar á leiðinni heim í frí. Átta vélar eru væntanlegar, sú fyrsta verður frá Wizz air og lendir á Keflavíkurflugvelli um tíuleytið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Tobias kemur til landsins.  Árið 2014 ferðaðist hann hingað með pabba sínum en feðgarnir voru mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu. En nú stendur til að þeysast um landið og Tobias kemur hingað ásamt vini sínum. „Við verðum tvo daga í Reykjavík en fáum síðan bíl 17. júní og ætlum þá að fara út á land, heimsækja lítil þorp en passa alltaf upp á nándarmörk og sóttvarnir.“

Í frétt DR kemur fram að Tobias sé búinn að birgja sig upp af spritti og andlitsgrímum og sé meðvitaður um einstaklingsbundnar sýkingavarnir.

Þetta er í raun eitt síðasta tækifærið sem þeir félagar fá til að ferðast saman. Vinur hans er á leið í arkitektaskóla í sumar og síðan tekur alvara lífsins við. Sjálfur tók Tobias sér frí úr vinnu til að geta farið í ferðina til Íslands.  

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum verða allir ferðamenn skimaðir fyrir COVID-19 við komuna til landsins.  Tobias kvíðir því ekki, fjölskylda hans hafi verið hress og ekki smitast. „Og raunar þekki ég ekki neinn sem fékk COVID-19.“ Þá ætla vinirnir líka að fara í sýnatöku á Kastrup-flugvelli til að ganga úr skugga um að þeir séu örugglega ekki smitandi áður en fljúga til Íslands með vél Icelandair.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV