Bókmenntarýnirinn sem áhrifavaldur

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV

Bókmenntarýnirinn sem áhrifavaldur

14.06.2020 - 09:55

Höfundar

„Það er endurnýjandi að skoða bókmenntaskrif Soffíu og hver veit, kannski er ekki öll von úti,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson um bókina Maddama, kerling, fröken, frú: Konur í íslenskum nútímabókmenntum, en þar er á ferðinni safn ritdóma Soffíu Auðar Birgisdóttur.

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Soffía Auður Birgisdóttir kann vel að vera okkar fremsti Þórbergsfræðingur og til viðbótar við að skrifa og ritstýra bókum hefur hún staðið vaktina sem bókmenntagagnrýnandi í hátt á fjórða áratug. Í fyrra kom út bókin Maddama, kerling, fröken, frú: Konur í íslenskum nútímabókmenntum, en þar er á ferðinni í senn safn ritdóma Soffíu og innlegg í umræðuna um kvennabókmenntir og stöðu kvenna í samtímalegri bókmenningu þjóðarinnar. Sem ritsafn geymir bókin þrjátíu og eina grein eftir Soffíu Auði, frá þrjátíu og einu ári. Greinarnar sem hér er að finna birtust með öðrum orðum allar á árunum 1988–2019. „Saman bregða greinar Soffíu Auðar“, segir í kynningartexta bókarinnar, „upp mynd af konum á öllum aldri eins og þær hafa birst í íslenskum nútímabókmenntum“ bæði sem höfundar og viðfangsefni skáldskapar. Bókinni er skipt í þrjá hluta, „Rýnt í sögur“, „Rýnt í ljóð“ og „Rýnt í höfundarverk“, og er þar fyrsti hlutinn umfangsmestur en ljóðahlutinn smágerðastur.

Kynningartextinn og sjálfur titillinn sníða bókinni skýran og forvitnilegan stakk, og má það heita vel af sér vikið að hún standi undir væntingum. Örlög bókmenntagagnrýnandans á löngum ferli eru gjarnan að skrifa um mjög svo ósamstæðan flokk bókmenntaverka, en auk þess að vera afkastamikil virðist Soffía hafa mótað sér áhugasvið snemma á ferlinum, því ritið nýja hefur á sér heildstæðari blæ en almennt er tilfellið um söfn af þessu tagi.

Eðli málsins samkvæmt fjalla flestar greinarnar í bókinni um höfundarverk kvenna, og er þar að finna samtímahöfunda í yngri kantinum á borð við Auði Jónsdóttur, Yrsu Þöll Gylfadóttur og Gerði Kristnýju, sem og höfunda sem stigið hafa inn í hefðina, fest sig í sessi með öðrum orðum. Fríðu Á. Sigurðardótur, Álfrúnu Gunnlaugsdóttur og Svövu Jakobsdóttur má nefna í því samhengi, en þær tvær síðastnefndu ásamt Vigdísi Grímsdóttur eru einu höfundarnir sem um er fjallað í fleiri en einni grein.

Karlhöfundarnir sem fá að fljóta með eru fjórir, Halldór Laxness, Mikael Torfason, Hallgrímur Helgason og Steinar Bragi. Viðvera Halldórs og Hallgríms skýrist af Sölku Völku og Konunni við þúsund gráður, stórar bækur um konur eftir karlhöfunda, og engan þarf að undra að stríðsyfirlýsing Steinars Braga á hendur nauðgunarmenningu samtímans, Kata, standi hér innan um friðsamari samborgara sína, blóðug í framan og hornótt. En einhver gæti spurt sig hvaða erindi Soffía Auður gæti hafa átt við Mikael Torfason.

Því er til að svara að önnur skáldsaga Mikaels, Saga af stúlku, fjallar um Ástu sem uppgötvar á fermingardaginn að hún fæddist sem drengur en var breytt í stúlku. Þetta er „saga um kynmótun, mismun kynjanna og kyngervisusla“, segir Soffía Auður og Silja Aðalsteinsdóttir bætir því við í inngangi sínum að ritsafninu að lesa megi Sögu af stúlku sem undanfara skáldsögu Eiríks Arnars Norðdahl um Hans Blæ, skáldsögunnar sem kom eins og sprengja inn í íslenskt bókmenntalíf fyrir tveimur árum, sprengja reyndar í þögulli bíómynd, viðlíka grafarþögn hefur ekki mætt bókmenntaverki í háa herrans tíð.

Kvenlæg uppreisn

En þögn tengist reyndar líka þeirri grein í bókinni sem, að öðrum ólöstuðum, mér fannst kannski mest til koma, en það er sú sem fjallar um Elísabetu Jökulsdóttur. Þar fjallar Soffía um höfundarverk sem litla athygli hefur hlotið, nokkuð sem maður hallast að því að túlka symptómatískt eftir að hafa fylgst með Soffíu draga fram þá kynjapólitísku ögrun, jafnvel uppreisn, sem í skáldverkum Elísabetar má finna, ekki síst gegn þeirri karlveldislægu hugmyndafræði sem bindur hugveru kvenna á klafa sjálfshaturs og úrræðaleysis andspænis eigin líkama.

Soffía tekur til máls:

„Í skrifum sínum um kvenlíkamann og skömmina sem honum tengist hefur Elísabet beint kastljósinu að og orðað hluti sem lengst af hafa legið í þagnargildi allt fram á þessa öld þótt ýmsar kvenréttindahreyfingar hafi reynt að setja þá á dagskrá. Þær kynslóðir kvenna sem ólust upp fyrir tíma #metoo, druslugöngunnar, free the nipple, kynjafræði og annarra álíka byltinga upplifðu þögn og skömm í kringum flest sem viðkom líkama kvenna, kynverund þeirra og kynlífi; um slíkt var ekki fjallað nema þá helst í formi kláms og annars konar kvenfjandsamlegrar umræðu. Því má halda fram að skrif Elísabetar um þessi málefni séu meðal mikilvægasta framlags hennar til íslenskra bókmennta.“

Umfjöllun af þessu tagi er einmitt skínandi dæmi um hvernig sinna eigi menningarlegu hlutverki bókmenntagagnrýnandans: að bregða birtu á rithöfund sem ekki hefur notið verðskuldaðrar viðurkenningar og með gagnrýnni sögusýn leggja lóð á vogaskálar aukins skilnings á fortíðinni. Um leið tekur ritdómari þátt í yfirstandandi réttindabaráttu með því að hnýta í valdastoðir sem enn standa keikar, ögra þeim og afhjúpa. Góður bókmenntarýnir dregur bæði fram hvernig bókmenntir mótast af hugmynda- og félagssögunni, og hvernig hugmynda- og félagssagan mótast af bókmenntum. Þá er ávalllt freistandi að finna leiðir til að skoða og hugsa um texta sem ganga í berhögg við það hvernig textinn hugsar um sjálfan sig – og í framhaldinu kannski reyna að segja það um bókmenntaverkið sem það getur ekki sagt um sig sjálft.

En þetta er óskasjálfsmyndin. Sumir, eins og Soffía Auður, standa nær henni en aðrir, en hlutverk bókarýnisins er að mörgu leyti undarlega útlítandi á nýju árþúsundi. Það er ekki síst af þeim sökum sem bók Soffíu hlýtur öðrum þræði að ýta undir vangaveltur um stöðu bókmenntagagnrýni á Íslandi um þessar mundir.

Bókmenntagagnrýni á nýju árþúsundi

Sumt breytist ekki. Eins og alltaf streymir bókaútgáfa ársins til landsins í skipum og gámum frá október og fram undir jól. Rýnirinn, sem að mestu hafði legið í dvala undanfarnar 42 vikur, hrekkur við og byrjar sína akkorðsvinnu. Jólabókaflóðið er fasti en annað breytist. Árið 2007 hóf sjónvarpsþátturinn Kiljan til dæmis göngu sína undir stjórn Egils Helgasonar og hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti umræðuvettvangurinn fyrir bókmenntir, ekki síst þegar að afkomu höfunda og forlaga er hugað. Á sama tíma, eða á árunum 2006-8, var stjörnugjöf tekin upp í bókadómum í dagblöðum, með Fréttablaðið og Morgunblaðið í forystusveitinni. 

Þess má geta að rætur stjörnugjafar af þessu tagi má leita til verta í hótelrekstri, en í umsjónarferli hótela virkar stjörnuskalinn sem tékklisti. Hver stjarna vísar til tiltekinna innviða eða þjónustu, og kerfið var skilvirkt. Ef að vetrarnóttu ferðalangur bankar upp á í leit að gistingu blasir við vísindaleg mæling á því sem hótelið hefur upp á að bjóða. Innleiðsla stjörnugjafar vakti takmarkaða hrifningu bókmenntagagnrýnenda Morgunblaðsins, enda bókmenntaverk um sumt ólíkt hóteli, en línan hafði verið lögð og henni var fylgt.

Þetta verðum við aðeins að staldra við. Stjörnugjöfin fór öfugt ofan í marga bókmenntagagnrýnendur á sínum tíman en kannski má í endurliti sjá tilkomu hennar sem ákall um ákveðna sjálfsskoðun, að þriggja mikilvægra spurninga sé spurt: Til hvers er bókmenntagagnrýnin, fyrir hvern er hún, og með hvaða hætti skal henni hagað?

Er hlutverk bókmenntagagnrýni einvörðungu að greiða neytendum leiðina að skynsamlegum vörukaupum, líkt og stjörnukerfið gefur í skyn? Getur umræðan takmarkað sig við gildismat, úrskurð um vondleika eða bókmenntaleika í krafti smekks?

Nei, auðvitað ekki. Eða, hún ætti í öllu falli ekki að gera það. Menningarumræðunni hefur jafnan verið haldið uppi af tilteknum hópum og ákveðnum stofnunum, og þar af eru fjölmiðlar mikilvægastir. Þannig varð til eitthvað sem kenna má við opinbert samtal um menningu, og svo rann samtalið sjálft inn í menningarhugtakið og reyndist þannig ein af forsendunum fyrir farsælli og heilsuhraustri þjóðmenningu.

Og það er ekki jólagjafaleitarinn sem endilega er ávarpaður, né heldur er það höfundurinn. Rithöfundum þykja gagnrýnendur stundum meinfýsnir gallagripir. Þá stendur lunga almennings jafnvel á sama um allt þetta bókahavarí, ekki síst ef Quibi er í símanum. Á sama tíma minnast aðrir gullaldarskeiðs heilsíðu og opnudóma, sem skrifaðir voru af gegnheilum bókmenntaspekúlöntum eins og Ólafi Jónssyni, Árna Bergman og Nirði P. Njarðvík. Er staðan þá sú að meðan sumum verður ekki gert til hæfis séu flestir áhugalausir? Það held ég ekki. Það er áðurnefndur hópur sem er ávarpaður, og til hans teljast allir þeir sem það vilja, jólagjafaleitarar og höfundar þar á meðal. En umræðan sem þannig verður til þrífst ekki án ákveðinnar fjarlægðar í garð viðfangsins, svo dæmi sé nefnt, fjarlægð sem skapar svigrúm til að beisla smekkinn og virkja vitsmunina?

Innilokunarkennd og eitrunaráhrif

Á Íslandi eru víðáttur og öræfi, en fjarlægð af þessu tagi er vart til staðar. Hvernig hagar bókmenntagagnrýnandinn starfi sínu og lífi þegar hann er dæmdur til einangrunarvistar í fjallumkringdum bæ á afskekktri eyju innanum greiningarviðföngin sem ætlast er til að hann fjalli um með faglegum hætti? Áðan hvarf ég frá því að skilgreina bókarýni sem ávarp til höfundar, en á Íslandi er hún það samt alltaf. Og tilhugsunin um að skrifa vondan dóm kann að virka fráhrindandi ef ritsmíðin framkallar svo eitrunaráhrif í raunheimum, það er svo stutt á milli fólks hérna, og sumir þekkja alla meðan aðra er maður alltaf að hitta á Dillon.

En þetta breytist væntanlega ekki í bráð, þetta er fasti eins og jólabókaflóðið. Hugum aftur að breytunum tveimur sem nefndar voru hér rétt áðan, stjörnugjöfinni og Kiljunni. Enda þótt Egill Helgason hafi komið inn af miklum krafti er mér til efs að Kiljan væri endilega eina alvöru gjallarhornið í menningunni í dag ef ekki væri fyrir annan hlut, og ég er heldur ekki viss um að stjörnurnar myndu hafa reynst sú meinsemd sem raunin sýnir ef ekki hefði verið fyrir sama hlut.

Og hvað er ég að tala um? Jú, hrunið, þið munið. Hagkerfið féll eins og spilaborg, og ekki höfum við enn bitið úr skelinni með áhrif þess á menningarvettvanginn. Ár eftir ár, áratug eftir áratug, var það til dæmis prinsippmál Morgunblaðsins að gagnrýna hverja einustu bók sem út var gefin á Íslandi. Þegar tók að hausta birti Fréttablaðið stundum marga bókadóma á hverjum degi. En hrunið kallaði á viðbrögð, og því miður reyndust þau í tilviki ansi margra fjölmiðla vera að skrúfa fyrir menningarumfjöllunina. Slíkur niðurskurður gekk til dæmis yfir menningardeildir Morgunblaðsins og Fréttablaðsins að líkja má við náttúruhamfarir.

Menningarlegu flaggskipi Morgunblaðsins, Lesbókinni, var lokað, en þar höfðu hátt í 60 bókagagnrýnendur verið á launaskrá. Í kjölfarið bauðst föstum starfsmönnum blaðanna að sinna bókagagnrýni í hjáverkum. Áhrifin voru auðvitað að umfjöllun um bókmenntir snarminnkaði, en til viðbótar, og í krafti allt í senn fimmhyrnda samfélagsleikfangsins, brotthvarfs gagnrýnendastéttarinnar og svo tækifærissinnaðrar nýliðunar hennar, og held ég gagngers áhugaleysis stjórnenda, tók meinsemd í formi einkunnabólgu sér bólfestu í umræðunni.

Egill Bjarnason hefur rannsakað stjörnugjöf í bókadómum og niðurstaða hans er sú að á sama tíma og menningarritstjórnum var sagt að flytja sig úr svítunni í kústaskápinn megi greina stórkostlegt stökk í meðalstjörnufjölda bókadóma bæði Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Umfjöllun um bókmenntir varð ómarktækari með hverju ári, bilið milli kynningar og menningarumræðu skrapp saman. Bókmenntagagnrýnandanum fór að svipa til áhrifavalda dagsins í dag, gagnlegir um stundarsakir í krafti sýnileika, en gleymdir von bráðar. Vertíðinni núorðið fylgir að vel á annan tug bóka líta dagsins ljós sem fá fullt hús stiga, svona þegar lofsöngur íhlaupabókarýna fjölmiðlanna er samantekinn, allir eru alltaf voða hrifnir, enda er það svo miklu auðveldara, svo ekki sé talað um hvað föstudagskvöldin á Dillon verða ljúfari. Og bókmenntaumræðan á Íslandi, sem umbreyst hefur í átakafælið hrósbandalag, er að sama skapi í andaslitrunum; jafn óáhugaverð og hún er öllum gagnslaus.

Þegar ég er orðinn svona svartsýnn er reyndar afskaplega gott að ég sé hérna með Maddömu, kerlingu, fröken, og frú við hliðina á mér, það er endurnýjandi að skoða bókmenntaskrif Soffíu og hver veit, kannski er ekki öll von úti.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Breiðgata brostinna drauma

Bókmenntir

Meistaraverk #metoo bókmenntanna

Reykjavíkurborg

Þórbergur sagðist elska Tryggva vin sinn

Bókmenntir

Yfirþyrmandi fagur og lífshættulegur í senn