Sumarólympíuleikarnir 2021 eru enn á dagskrá

13.06.2020 - 04:26
epa07205568 John Coates (C-L), member of International Olympic Committee (IOC) and chairman of the IOC Coordination Commission for the Games of the Tokyo 2020 Olympics, poses with Yoshiro Mori (C-R), President of Tokyo 2020 Olympic Committee, Japanese pitchers of Yokohama DeNA BayStars Yasuaki Yamasaki (2-L), Kenta Ishida (3-L), former baseball player Daisuke Miura (3-R) and softball players Eri Yamada, and Mayor of Yokohama City Rumiko Hayashi (R) for a photo session during the IOC venue inspection of Yokohama Baseball Stadium in Yokohama, south of Tokyo, 03 December 2018.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA
 Mynd: EPA
Skipuleggjendur Sumarólympíuleikanna sem eiga að fara fram í Tókíó í Japan á næsta ári eru bjartsýnir á að unnt verði að tryggja öryggi þátttakenda og gesta þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Allt kapp verður lagt á að mögulegt verði að halda þessa viðamestu íþróttakeppni heims.

Leikarnir áttu að fara fram í sumar en ákveðið var að fresta þeim um eitt ár. Slíkt hefur ekki gerst áður á friðartímum frá því að nútíma Ólympíuleikar voru fyrst haldnir árið 1896.

Leikarnir féllu þrisvar niður á síðustu öld, í öll skiptin á stríðstímum. Fyrst gerðist það í miðri fyrri heimsstyrjöldinni árið 1916 og sú síðari varð til að ekkert varð af leikunum 1940 og 1944.

Þráðurinn var svo tekinn upp að nýju í Lundúnum fjórum árum síðar og sumarólympíuleikar hafa verið haldnir á fjögurra ára fresti síðan. Þar til nú.

Landsstjórinn í Tókíó, Yuriko Koike, kveðst staðráðin í að leikarnir verið haldnir til marks um sigur mannsins yfir veirunni. Þeir verða þó smærri í sniðum en oft áður, allt verður einfaldara og ódýrara en löngum áður.

Gert er ráð fyrir að opnunarhátíð leikanna verði 23. júlí en heilbrigðissérfræðingar hafa lýst áhyggjum yfir að ekki takist að stöðva útbreiðslu faraldursins í tíma.

Því geti orðið vandasamt að tryggja að öruggt verði að efna til viðburðar af þessari stærðargráðu.

Skipuleggjendur telja útilokað að fresta leikunum frekar og því sé allt gert sem í mannlegu valdi stendur til að tryggja að hægt verði að efna til Sumarólympíuleikanna 2020 árið 2021.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi