Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Listin að reykja ósýnilega sígarettu

Mynd: Borgarleikhúsið / Níu líf

Listin að reykja ósýnilega sígarettu

13.06.2020 - 15:01

Höfundar

„Að fjarlægja sígarettuna var örugglega ódýrasta og þægilegasta lausnin á þessu máli. En samt vill maður auðvitað sjá slíkt hof listarinnar standa með því sem það hýsir og verndar,“ segir Halldór Armand um stóra sígarettumálið í Borgarleikhúsinu.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Ég gekk framhjá Borgarleikhúsinu í gærkvöld, sá þar veggspjaldið stóra af Bubba Morthens og fór að hugsa um það hversu uppfullt lífið er af draugum, hversu oft við sjáum einungis það sem ekki sést. Því þetta er náttúrulega það eina sem maður sér núna á myndinni af Bubba Morthens, sígarettan, sem er ekki lengur á myndinni. Það eina sem sést er það það sem ekki sést, það sem var fjarlægt. Það er engin sígaretta á myndinni, en samt sé ég mann að reykja sígarettu.

Kannski má bera aðeins meira í bakkafullan lækinn um þessa mynd, sem er ekki lengur hún sjálf. Hvort sem við notum alvörugefið orð eins og ritskoðun yfir þetta fíaskó eða ekki, er myndin af Bubba utan á Borgarleikhúsinu ansi gott dæmi um það hversu vandmeðfarið það er að ætla sér að hreinsa listaverk af óþægindum, aukinheldur fortíðina sjálfa. Kannski mætti orða þetta sem svo að fortíðin láti ekki að sér hæðast.

Sígarettan sem lafði úr munnviki söngvaskáldsins var fjarlægð eftir að siðferðisalgóritmar Facebook höfnuðu henni og leikhúsinu bárust kvartanir þess efnis að veggspjaldið væri einhvers konar hvatning til reykinga. Í fyrsta lagi er merkilegt að hugsa til þess að Facebook stjórni því núna hvers konar veggspjöld fá að hanga utan á íslensku leikhúsi. Það er eitt að fyrirtæki eins og Facebook sé með einhvers konar innri siðferðisviðmið og reglur um það hvers konar efni má birtast á síðunni, annað að listræn tjáning í kjötheimum, ef svo má að orði komast, í allt annarri lögsögu en þar sem fyrirtækið er staðsett, sé háð því hvað algóritmar fyrirtækisins telja boðlegt og hvað ekki. Það kannski sýnir ansi vel, að það er ekki jafnmikill munur á hinni stafrænu veröld og hinni raunverulegu eins og stundum er látið.

List- og sagnfræðingar framtíðar klóra sér í kollinum

Fyrir ári síðan flutti ég hér pistil sem nefndist Lækið og þér munið finnast og fjallaði um áhrif læktakkans. Þar sagði meðal annars: „Á mínum myrkustu augnablikum grunar mig að þessi takki, þessi stafrænu hreyfilögmál sem snúast um að skapa auð fyrir ríkasta fólk í heimi, tröllríði næstum öllu, stýri því eiginlega hvernig allt er tjáð, hugsað og sett fram og sé um leið að tortíma frjálsri hugsun, tjáningu og sköpun, allt saman vitaskuld undir þeim fölsku formerkjum að vera að efla þessa sömu hugsun, tjáningu og sköpun, og sagnfræðingar framtíðar muni klóra sér í höfðinu yfir því hvernig milljarðar manna sættu sig við að mannlegri tilveru í heild sinni hefði verið breytt í neysluvöru, sem síðan var aftur seld fólkinu sem lifði henni.“

Þessi orð eiga meðal annars við um myndina af Bubba Morthens. Þar er vitaskuld ekki um að ræða læktakkann, nema í óbeinum skilningi, en það að mynd utan á íslensku leikhúsi sé breytt vegna þess að Facebook neitar að birta hana á netinu, þýðir að Facebook stýrir því í raun hvernig sýningin er sett fram út á við á Íslandi. Kynningarstarfið fer fram á forsendum Facebook, ekki leikhússins, hvað þá listarinnar. Það er auðvelt að gagnrýna Borgarleikhúsið fyrir að taka svo afdráttarlausa afstöðu gegn sínu eigin sköpunarverki, svo að segja, en ég held að sannleikurinn sé sá að list og þau umfjöllunarefni sem hún beinist að fari mjög oft fram á forsendum læktakkans og þar með stórfyrirtækja. Það er bara ekki alltaf jafnaugljóst og í tilviki Borgarleikhússins hér.

Lífvald: Lýðheilsa sem stjórntæki

Þá er stóra sígarettuhvarfið utan á Borgarleikhúsinu líka óneitanlega dæmi um það hversu öflugt stjórntæki lýðheilsa er orðin. Ég er ekki mjög vel lesinn í kenningum franska heimspekingsins Michel Foucault en hann setti á áttunda áratugnum fram hugtakið lífvald, eins og það er kallað á íslensku. Lífvaldið er sú margþætta og oft fíngerða tækni sem yfirvald beitir til þess að stýra fólki í stórum hópum. Foucault greindi umskiptin sem áttu sér stað milli 17. og 19. aldar þar sem eðli yfirvalds í vestrænum samfélögum hætti að grundvallast á yfirráðum yfir lífi og dauða þegnanna og fór að snúast frekar um það hvernig lífinu sjálfu er lifað. Maður getur ímyndað sér kóng sem gat líflátið andstæðinga sína að vild og svo yfirvald dagsins í dag, sem getur ekki stýrt eftir eigin hentisemi hvort fólk fær að lifa eða ekki, en reynir að hafa þeim mun meiri völd yfir því hvernig lífið sjálft fer fram, meðal annars gegnum það sem heimspekingurinn kallaði ögunarstofnanir. Lífvaldið snýst bókstaflega um það að ná völdum yfir líkama fólks. Það fer fram gegnum margar og fjölbreyttar leiðir til þess að hafa taumhald á líkama fólks og stýra þjóðunum.

Og ég sé ekki betur en að þarna hafi ögunarstofnanir slegið á hendur leikhússins og sagt því að haga sér vel.

Á hinn bóginn er ekkert nýtt að yfirvald vilji stjórna listamönnum og aga þá. Sjálfur Plató, sem átti í einhvers konar ástar-haturssambandi við list, leit svo á að list gæti verið afar mótandi fyrir persónuleika fólks og hana þyrfti því að ritskoða vandlega. Kaflarnir í Ríkinu þar sem hann ræðst á Hómer, á sama tíma og hann beygir sig í duftið fyrir skáldinu blinda, eru með því besta sem ég veit um. Já, ég er viss um að hetjan mín hann Plató hefði eflaust klappað fyrir myndinni af reyklausa Bubba ef ég hefði farið með hann upp í Efstaleiti. „Listin á að sýna hið góða, Halldór minn,“ ímynda ég mér hann segja. „Við eigum ekki að sýna guðina í röngu ljósi.“ En ástæður hans fyrir því eru auðvitað miklu dýpri og margþættari en svona yfirborðsleg tilvísun getur rúmað.

Sannleikurinn er í heildinni

Hins vegar sýnir myndin af reyklausa Bubba okkur hversu vandasamt það getur verið að skrúbba raunveruleikann. Það kemur á daginn að það er ekkert sérstaklega auðvelt að hreinsa hann af hinu óæskilega, eins og til dæmis sígarettu. Á upprunalegu ljósmyndinni úr tímaritinu Samúel árið 1981 er Bubbi líka með eyrnalokk. Hann rataði ekki inn á veggspjald Borgarleikhússins. Og núna er engin sígaretta heldur. Tvö mikilvægustu smáatriðin, þau tvö element sem Bubbi notaði til þess birta sjálfan sig, svo að segja, eru horfin, og eftir stendur dauðhreinsuð útgáfa, líflaus ljósmynd þar sem maður sér ekkert nema sígarettuna, einmitt vegna þess að hún er ekki þar lengur. Það sem einu sinni var geggjuð mynd, er núna í besta falli mjög skrýtin mynd. 

Afleiðingin er sú að Bubbi er með einhvern svip sem ég hef aldrei séð áður. Hann er ekki á svipinn eins og maður sem er ekki að reykja – hann er á svipinn eins og maður sem er með eitthvað ósýnilegt uppi í sér. Einu sinni var ég á leiðinni á sýningu um þennan epíska og víðfræga töffara þarna utan á Borgarleikhúsinu. Núna er ég á leiðinni á sýningu um syfjulegan mann sem er með eitthvað ósýnilegt uppi í sér. Lexían er þessi: Listaverk er heild, sannleikurinn er í heildinni. Þegar óhreinindi veruleikans eru strokuð út eða ritskoðuð, stendur ekki eftir hreinn veruleiki, heldur bjagaður og brotinn. Óhreinindin eru órjúfanlegur hluti af heiminum, gera hann að því sem hann er. Þess vegna sjá allir að það er eitthvað mjög bogið við Bubba-veggspjaldið. Myndin er af manni að reykja. Það er innsta eðli myndarinnar, svo að segja. Og þótt sígarettan sé fjarlægð er Bubbi samt ennþá að reykja. Sígarettan er ekki það sem raunverulega gerir ljósmyndina að reykingamynd. Ljósmyndin er heild, sannleikur hennar er í heildinni. Og hún er af manni að reykja. Allt fas Bubba á henni er í takt við það, svipbrigðin, augun, munnvikin, lífsstíllinn, lífsviðhorfið. Sígarettan er kóróna ákveðinnar áru sem öll myndin birtir. 

Ég hef samúð með Borgarleikhúsinu hér, það getur ekki verið skemmtilegt að fá siðferðisforrit alþjóðlegs eftirlitsfyrirtækis og íslenskar ögunarstofnanir upp á móti sér þegar maður er bara að reyna að setja upp venjulega leiksýningu. Að fjarlægja sígarettuna var örugglega ódýrasta og þægilegasta lausnin á þessu máli. En samt vill maður auðvitað sjá slíkt hof listarinnar standa með því sem það hýsir og verndar, styðja frelsi fólks til þess að vera eins og það er, með öllu sínu láni og löstum og hrófla aldrei við því markmiði og tilgangi listamannsins að birta sinn persónulega og sjálfstæða sannleika, svo við hin getum séð heiminn í nýju ljósi.

Tengdar fréttir

Pistlar

Dauði háskans á netinu

Pistlar

Þú munt alltaf þurfa hærri laun

Pistlar

Að þrá úr fjarlægð

Pistlar

Allar manneskjur eru ólöglegar