Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Frá Guantanamo til Hollywood

Mynd: Showtime / Showtime

Frá Guantanamo til Hollywood

13.06.2020 - 08:22

Höfundar

Mohamedou Slahi var ranglega vistaður í Guantanamo í meira en 14 ár. Nú er verið að gera kvikmynd í Hollywood, með stórleikurunum Benedict Cumberbatch og Jodie Foster í aðalhlutverkum, um manninn sem segist hafa fyrirgefið kvölurum sínum.

Mohamedou Slahi var fimm þúsund fjögur hundruð fjörutíu og fimm daga í hinum alræmdu Guantanamo fangabúðum við herstöðina við Guantanamo-flóa á Kúbu. Honum var rænt í Máritaníu af leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, nokkrum vikum eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum þiðjudaginn 11. september 2001. Þann dag var fjórum farþegaþotum rænt á flugi yfir austurströnd Bandaríkjanna, tveimur þeirra flogið á World Trade Center tvíburaturnana í New York, einni á Pentagon-bygginguna í Arlington-sýslu í Virginíu og ein hrapaði í Somerset-sýslu í Pennsylvaníu eftir átök farþega og flugliða við hryðjuverkamennina um borð. Bandaríkjamenn grunuðu Slahi ranglega um að hafa hjálpað til við að skipuleggja ódæðin en hafa aldrei viðurkennt mistök sín eða beðist afsökunar. Frá Máritaníu var hann fluttur til yfirheyrslna í Jórdaníu og síðar Afganistan en var síðan vistaður í Guantanamo-fangabúðunum sem fangi númer 760.

Benedict Cumberbatch og Jodie Foster

Nú er verið að ljúka tökum á myndinni Fangi númer 760 með stórleikurum eins og Benedict Cumberbatch og Jodie Foster í aðalhlutverkum. Áætlað er að myndin verði tekin til sýninga snemma á næsta ári. Í myndinni leikur Cumberbatch ríkissaksóknarann Stuart Couch sem átti að sækja Slahi til saka en felldi málið á endanum niður vegna skorts á sönnunum.

Mynd með færslu
 Mynd:
Jodie Foster

Í viðtali við þýska blaðið Der Spiegel lýsir Slahi hvernig kvalarar hans sigldu með hann út á Karabíska hafið. Bundið var fyrir augu hans og líkaminn vafinn í ís til að fela ummerki um pyntingarnar. Þeir sögðust ætla að sökkva honum í sæ, enginn myndi sakna hans. Ekkert varð úr þeirri hótun en þeir börðu hann þar til rifbeinin brotunuðu. Slahi segist hafa verið fullur heiftar í upphafi og viljað sprengja Hvíta húsið í loft upp. Til að takast á við áföllin ákvað hann að velja fyrirgefninguna frekar en hatrið. Í viðtalinu er hann í bol sem á stendur Choose Love eða veldu ástina eða kannski bara Allt fyrir ástina að hætti Páls Óskars. Mohamedou Slahi tapaði ekki vitinu eins og margir samfangar hans. Bara á árinu 2003 reyndu 120 fangar að fremja sjálfsmorð. Það heyrir til undantekninga að þeim sem sleppt hefur verið lausum hafi tekist að hefja eðlilegt líf eftir vistina í Guantanomo.

Teflir við kvalara sinn og drekkur te

Það var ekki fyrr en 17. október 2016 sem CIA lét flytja Slahi aftur til Máritaníu, þar sem hann var handtekinn meira en hálfum öðrum áratug fyrr. Ekkert var eins og áður, móðir hans látin og margir vinir og ættingjar fluttir á brott. Eftir að hann var látinn laus skrifaði hann færslu á Faceook til allra kvalara sinna og fangavarða á Guantanamo. Þar sagði hann að allir hefðu lært mikið á þessum tíma og að hann vonaðist til þess að hitta kvalara sína yfir tebolla. Hann segist vera búinn að fyrirgefa þeim. Það sé engin önnur leið til að komast í gegnum slíkt kvalræði án þess að tapa geðheilsunni. Nokkrir hafa svarað honum og hann hefur verið í sambandi við suma þeirra. Einn þeirra er vinur hans í dag og þeir sitja löngum stundum við taflborðið eða horfa saman á kvikmyndir. Fyrir tveimur árum kom einn hermannanna sérstaklega til Máritaníu til að heimsækja hann.

epa03836444 US Sergeant Cody Stagner on the grounds of the now closed Camp X-Ray in Guantanamo Bay, Cuba, 22 August 2013. The Guantanamo Bay detention camp is a controversial United States military prison located within Guantanamo Bay Naval Base, Cuba
 Mynd: EPA - dpa

Minningarnar ásækja Slahi engu að síður. Hann getur ekki sofið í stærra svefnherbergi en sem nemur klefastærðinni í Guantanamo og hann verður að sofa einn. Á nóttinni dreymir hann iðulega að hann sé í Guantanamo, einn og nakinn á gólfinu undir neonljósum. Bandaríski þjóðsöngurinn glymur stöðugt á fullum styrk og kvalarar hans öskra á hann linnulaust. Í dag er hann órafjarri Guantanamo en fangabúðirnar búa enn innra með honum. 

Fær ekki að fara til eiginkonu og barns

Fyrir tveimur árum giftist Slahi aftur, konu sem hann kynntist á netinu. Hún er frá Bandaríkjunum og býr í Berlín. Saman eiga þau ársgamlan son. Hann segir að sambandið sé nýtt upphaf en á sama tíma mikil áskorun. Kynferðisleg misnotkun í Guantanamo hefur skilið eftir sig ör á sálinni og öll snerting kallar fram minningar um sársauka og niðurlægingu. Sjálfur býr hann í Máritaníu og þar er hann þjóðhetja sem sigraði heimsveldið með innri styrk. Hann skrifaði bókina Dagbók frá Guantanamo sem varð metsölubók sem þýdd hefur verið á 27 tungumál. Hollywood kvikmyndin er byggð á bókinni. Þar segir frá bedúína frá Máritaníu sem reynist framúrskarandi nemandi og fær skólastyrk til að nema í Þýskalandi. Þar lærir hann rafmagnsverkfræði og býr í Þýslandi í tólf ár. Þá fær hann símhringingu frá frænda sínum en sá var fylgismaður Osama bin Laden og hringdi úr síma hryðjuverkaleiðtogans. Ástæðan var veikindi föður hans og beiðni um fjárhagsaðstoð honum til handa. Leyniþjónustan CIA hleraði símtalið og dró þá ályktun að Slahi væri helsti stuðningsmaður Bin Ladens í Þýskalandi. Það kostaði hann hálfan annan áratug af lífinu og gott betur. Leyniþjónustan hefur ekki beðist afsökunar og leggst enn gegn því að hann njóti ferðafrelsis. Enn þann dag í dag hefur hann ekki fengið vegabréfsáritun til Þýskalands þar sem eiginkona hans býr og eins árs sonur þeirra.