Mohamedou Slahi var fimm þúsund fjögur hundruð fjörutíu og fimm daga í hinum alræmdu Guantanamo fangabúðum við herstöðina við Guantanamo-flóa á Kúbu. Honum var rænt í Máritaníu af leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, nokkrum vikum eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum þiðjudaginn 11. september 2001. Þann dag var fjórum farþegaþotum rænt á flugi yfir austurströnd Bandaríkjanna, tveimur þeirra flogið á World Trade Center tvíburaturnana í New York, einni á Pentagon-bygginguna í Arlington-sýslu í Virginíu og ein hrapaði í Somerset-sýslu í Pennsylvaníu eftir átök farþega og flugliða við hryðjuverkamennina um borð. Bandaríkjamenn grunuðu Slahi ranglega um að hafa hjálpað til við að skipuleggja ódæðin en hafa aldrei viðurkennt mistök sín eða beðist afsökunar. Frá Máritaníu var hann fluttur til yfirheyrslna í Jórdaníu og síðar Afganistan en var síðan vistaður í Guantanamo-fangabúðunum sem fangi númer 760.
Benedict Cumberbatch og Jodie Foster
Nú er verið að ljúka tökum á myndinni Fangi númer 760 með stórleikurum eins og Benedict Cumberbatch og Jodie Foster í aðalhlutverkum. Áætlað er að myndin verði tekin til sýninga snemma á næsta ári. Í myndinni leikur Cumberbatch ríkissaksóknarann Stuart Couch sem átti að sækja Slahi til saka en felldi málið á endanum niður vegna skorts á sönnunum.