Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tilboðsgjafar langeygir eftir ákvörðun Strætó

12.06.2020 - 15:27
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Tilboðsgjafar í útboði Strætó um akstursþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu eru orðnir langeygir eftir fregnum af því hver verður fyrir valinu. Þetta segir Andrés Eyberg Magnússon, einn tilboðsgjafanna. 

Tilboðin voru opnuð 7. maí. Sex tilboð bárust og upphæð þeirra lá fyrir samdægurs. Eru þau á bilinu 2,9 til 4,3 milljarðar króna. Strætó hefur ekki tilkynnt að hvaða tilboði verður gengið en gert er ráð fyrir að tilboðsgjafinn sem verður fyrir valinu byrji að sinna akstursþjónustu 1. júlí. 

Óþægilegt að geta ekki hafið undirbúning

Andrés segir að hann og aðrir tilboðsgjafar séu undrandi á því að ekki skuli hafa verið tekin ákvörðun. Nauðsynlegt sé að standa vel að undirbúningi starfseminnar og hann þurfi að hefjast tímanlega. 

Andrés telur sig ágætlega í stakk búinn til að sinna þjónustunni í sumar. Hins vegar þurfi hann að gera ýmsar ráðstafanir til þess að geta sinnt henni með fullnægjandi hætti þegar skólar hefjast í haust.

 „Við þurfum til dæmis að panta bíla að utan og það getur tekið nokkra mánuði. Svo þarf að ganga frá samningum við undirverktaka,“ segir hann. Hann segist hafa spurst reglulega fyrir hjá stjórnendum Strætó á síðustu þremur vikum og fengið þau svör að ákvörðunin myndi liggja fyrir í „næstu viku“.

Strætó hefur átta vikur til að svara tilboðunum og rennur sá frestur út 2. júlí. Samningur við fyrri verktaka rennur hins vegar út 1. júlí. Haraldur Teitsson, formaður Félags hópferðaleyfishafa, segir að tíminn sé naumur og telur að útboðið hefði átt að fara fram mun fyrr. Hann bendir á að fyrri útboð af sama tagi hafi yfirleitt farið fram nokkrum mánuðum áður en að viðkomandi verktakar áttu að taka við þjónustunni og því hafi þeir haft nægan tíma til þess að undirbúa sig. „Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð við útboð,“ segir hann.

Haraldur bendir á að akstursþjónusta fatlaðra sé viðkvæm og vísar til fjaðrafoksins sem varð þegar Strætó tók við þjónustunni 2012. Hann segir tafir í útboði þjónustu af þessu tagi grafalvarlegt mál.

 „Ekki einfalt mál“ 

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó segir að málið sé flókið og að enn sé verið að fara yfir gögn.

 „Þetta er ekki einfalt mál og það þarf að huga að mörgu. Við erum með sérfræðinga sem eru að fara yfir þetta," segir hann. Hann vonast til að niðurstaða liggi fyrir í næstu viku. 

Strætó er með samninga við átján verktaka. Jóhannes segir að umfang akstursþjónustunnar hafi minnkað talsvert og í útboðinu sé gert ráð fyrir að aðeins einn verktaki sjái um hana. Samningur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um akstursþjónustu fatlaðra rann út um áramótin.