Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Talsvert minna um innbrot það sem af er ári

12.06.2020 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Borist hafa að meðaltali 19% færri tilkynningar um innbrot það sem af er ári en síðastliðin þrjú ár. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu.

Umferðarlagabrot voru jafnframt umtalsvert færri það sem af er ári.

Hegningarlagabrot voru alls 712 í maí en þau voru 691 talsins í apríl.

Umferðalagabrotum, fíkniefnabrotum og tilkynningum um þjófnaði fjölgaði frá apríl til maí. Hins vegar voru færri ofbeldisbrot skráð í maí en apríl og sömuleiðis fækkaði tilkynningum um heimilisofbeldi milli mánaða. 

Í upphafi COVID-faraldursins varaði Europol við því að glæpamenn kynnu að breyta mynstri sínu í nýjum aðstæðum. Til að mynda var varað sérstaklega við netglæpum, fjársvikum og svikamyllum í tölvupósti eða síma. 

Europol taldi sömuleiðis að eðli innbrota myndi breytast og varaði sérstaklega við bíræfnum þjófum sem berja á dyr, dulbúnir sem heilbrigðissstarfsmenn.