Skulda milljarða vegna aflýstra flugferða

12.06.2020 - 07:21
epa05364443 A Boeing 737-800 of Norwegian Air Shuttle (ASA) with her tail painted with a protrait late Danish architech Jorn Utzon takes off behind two SAS Boeing 737-86N aircrafts in parking position at Terminal 4 during the SAS pilots? strike at Arlanda
 Mynd: EPA - TT
Norrænu flugfélögin SAS og Norwegian skulda viðskiptavinum sínum milljarða vegna flugferða sem fljúga átti í apríl og maí, en sem var svo aflýst vegna kórónaveirufaraldursins.

Danska ríkisútvarpið DR segir flugfélögin tvö skulda viðskiptavinum andvirði um sjö milljarða danskra kóna, eða um 142 milljarða króna, vegna ferða sem voru felldar niður á þessu tímabili. 

Ferðir sem fljúga átti í mars eru endurgreiddar nú í júní að sögn norsku fréttaveitunnar NTB. Þeir sem áttu hins vegar bókaða ferð í apríl eða maí fá hana ekki endurgreidda fyrr en í haust.

SAS hefur selt ferðir sem ekkert verður af fyrir um  4,6 milljarða og sala Norwegian er á bilinu 1,5-2,5 milljarðar.

Eigið fé SAS dugar ekki til að greiða þessa útistandandi skuld. Fjölmiðlafulltrúi flugfélagsins John Eckhoff, fullyrðir þó að þeir viðskiptavinir sem þess óska muni engu að síður fá miðann sinn endurgreiddan.
 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi