Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kynnti tillögu um nýja flugstöð í Vatnsmýri

Mynd með færslu
 Mynd: Samgöngu- og sveitastjórnarrá
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti tillögu um byggingu nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli á ríkisstjórnarfundi í dag. Flugstöðin er í mun verra ástandi en talið var í fyrstu. Nýleg ástandsskoðun á henni leiddi þetta í ljós.

„Núverandi flugstöð á Reykjavíkurflugvelli er orðin lúin, að hluta til í gámaeiningum og löngu tímabært að bæta aðstöðu fyrir farþega og starfsmenn,“ segir Sigurður Ingi í færslu á Facebook.

Viðræður eru hafnar um hvernig tryggja skuli rekstrargrundvöll og uppbyggingu nýrrar flugstöðvar í samvinnu við Air Iceland Connect með þátttöku fjármála- og efnahagsráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Isavia.

Samkvæmt tillögunni er nýbyggingin 1.600 fermetrar og gert er ráð fyrir að fleiri flugrekstraraðilar nýti nýju flugstöðina. 

Samkomulag náðist í nóvember í fyrra milli ríkis og borgar um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli samhliða því að rannsaka möguleika á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni í Straumsvík og lagði hvort um sig hundrað milljónir til að fjármagna rannsókn um Hvassahraun næstu tvö árin. 

Stefnt er að því að taka ákvörðun um hvort af byggingu flugvallarins í Hvassahrauni verður fyrir lok árs 2024 ef þær rannsóknir gefa tilefni til.

Niðurgreiða flugferðir íbúa landsbyggðarinnar

Sigurður Ingi segir einnig að stefnt sé að því að hefja greiðsluþátttöku stjórnvalda í innanlandsflugi í september. Þá munu íbúar landsbyggðarinnar sem búa í meira en 275 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni fá endurgreiddan hluta fargjalds af ferð til og frá Reykjavík.

Áréttuðu reglur um trúnað

Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í dag harmaði nefndin fréttaflutning af óbirtri skýrslu til samgöngu- og sveitastjórnarráðherra um flugvallarkosti á suðvesturhorni landsins sem kynnt var nefndarmönnum á fundi nefndarinnar þann 21. nóvember í fyrra. Trúnaður átti að ríkja um skýrsluna til 25. nóvember en efni skýrslunnar var til umfjöllunar í fjölmiðlum sama dag og kynningin fór fram.