Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimurinn á tímum kórónuveirunnar

12.06.2020 - 02:07
Erlent · Bandaríkin · Brasilía · COVID-19 · Efnahagmál · Kína · Kreppa
epa08445226 A medical professional administers a COVID-19 test at a free, no-appointment testing site near Barcroft Sports and Fitness Center in Arlington, Virginia, USA, 26 May 2020. Arlington County sponsored the event, which saw hundreds of residents waiting in line for the test.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir ein og hálf milljón manna hefur greinst með kórónuveiruna í rómönsku Ameríku. Álfan gæti einnig staðið frammi fyrir matvælaskorti í kjölfar verðfalls á heimsmörkuðum í dag. Óttast er að langan tíma taki fyrir efnahaginn að ná sér.

Ástandið er mjög alvarlegt í Brasilíu, en þar hafa yfir 800 þúsund sýkst og 40 þúsund látist. Þrátt fyrir það hafa verslanamiðstöðvar í stærstu borgum landsins verið opnaðar á ný.

Í álfunni allri hafa nú um 70 þúsund látist af völdum kórónuveirunnar.

Evrópa

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur mælst til að innri landamæri ríkja þess verði opnuð 15. júní. Gert er er ráð fyrir að ytri landamærin verði opnuð smám saman í þeim löndum þar sem tekist hefur að koma böndum yfir faraldurinn.

Mjög mikilvægt er fyrir efnahag Evrópu að koma ferðamannaiðnaðinum í gang að nýju.

Bandaríkin

Í Bandaríkjunum hafa flestir sýkst og látist á heimsvísu. Nú eru tilfelli þar komin yfir tvær milljónir.

Þar hafa hátt í 45 milljónir misst atvinnu síðan um miðjan mars sem hefur gert verulegan óskunda í efnahagslífi heimsíns.

Nú þegar markaðir á Wall Street hafa tekið sína dýpstu dýfu síðan um miðjan mars fullyrðir Steven Mnuchin fjármálaráðherra Bandaríkjanna að efnahagslífinu verði að koma í gang jafnvel þótt önnur bylgja faraldursins skelli á.

„Frysting efnahagslífsins", segir hann, „myndi valda meiri óskunda en faraldurinn sjálfur."

Aðrir hlutar heimsins

Í Rússlandi hefur nú verið staðfest yfir hálf milljón tilfella og í Íran hafa 180 þúsund smitast.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur einnig varað við aukinni útbreiðslu veirunnar í Afríku.

Þar er ástandið að versna mjög að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Þar virðist vera veldisvöxtur tilfella því þar tók ríflega þrjá mánuði að ná 100 þúsund tilfellum en á síðustu tveimur vikum eru þau orðin 200 þúsund.

Versta kreppa sögunnar

Alls hafa 7.5 milljón manns smitast af kórónuveirunni í heiminum öllum og næstum 420 þúsund hafa látist.

Vegna þeirra aðgerða sem beitt hefur verið til að hefta útbreiðslu faraldursins stendur heimurinn nú frammi fyrir grafalvarlegum efnahagslegum áskorunum.

Að mati efnahagsnefndar Sameinuðu Þjóðanna um málefni rómönsku Ameríku og Karíbahafssvæðisins gæti það svæði þurft að horfast í augu við verstu kreppu sögunnar.

Þar er nú þungamiðja heimsfaraldursins. Hætt er við að þessi hluti heimsins komi út úr kórónuveirufaraldrinum skuldugri, fátækari og með hærra hlutfall atvinnuleysis en nokkru sinni áður.

„Og það sem verst er, mun reiðari," er haft eftir aðalritara nefndarinnar Aliciu Barcena.

Samdráttur í efnahag helstu iðnrikja heimsins er um 3.4% á fyrstu þremur mánuðum ársins. Í Kína var samdrátturinn 9.8%. Það er mesti samdráttur síðan mælingar hófust árið 1998.

Bóluefnis er þörf

Harla ólíklegt er að lífið á jörðinni verði aftur eins og það var fyrir tíma kórónuveirunnar fyrr en bóluefni hefur fundist.

Nú hafa brasilísk yfirvöld gert samkomulag við kínverskt fyrirtæki um að hefja framleiðslu bóluefnis um leið og prófanir hafa leitt í ljós virkni þess.