Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gleðiganga í Færeyjum færð á netið

12.06.2020 - 23:45
Jóhanna Sigurðardóttir og Jónína Leósdóttir í Gleðigöngunni í Þórshöfn, 27. júlí 2017
 Mynd: ruv
Ekkert verður af gleðigöngunni Faroe Pride í Færeyjum þetta árið. Forvígisfólk hinseginfólks hefur ákveðið að fara að fjarlægðarreglum og efna heldur til nokkurra smærri viðburða og færa hátíðina sjálfa á Netið.

Faroe Pride hefur verið mest sótti viðburður í eyjunum undanfarin ár. Þar líkt og á Íslandi safnast þúsundir saman til að fagna fjölbreytileikanum.

Vitandi af þeirri miklu aðsókn var ákvörðunin tekin enda finnst skipuleggjendum óábyrgt að taka nokkra áhættu á tímum kórónuveirunnar.

Hátíðin, sem átti að fara fram 27. júlí, verður eins og áður sagði færð að stórum hluta í netheima þar sem sérhver getur óhikað tekið þátt.

Alþjóðlega Kvikmyndahátíð minnihlutahópa býður upp á sýningar fyrir smærri hópa dagana 24. til 27. júlí.

Ætlunin er að vínbarinn Sirkus í Þórshöfn haldi mikið teiti daginn sem hátíðin átti að fara fram – ef aðstæður leyfa.

Skipuleggjendur hátíðarinnar stefna ótrauðir að því að halda hana með hefðbundnu sniði í lok júlí 2021.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV