Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fölleit er fegurðin

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Maggý - Febrúar

Fölleit er fegurðin

12.06.2020 - 13:38

Höfundar

About Time er fyrsta breiðskífa Febrúar sem er listamannsnafn Bryndísar Jónatansdóttur. About Time sem er plata vikunnar á Rás 2 er tilkomumikið verk og magnaður frumburður.

Segja má að þessi plata, About time, spretti sem fullsköpuð úr höfði Metísar og fyrirvarinn var til þess að gera stuttur. Ég varð var við þær smáskífur sem hafa verið að vætla út á undanförnum árum, og man að ég hugsaði, „það væri gaman að fá plötu frá þessari“. Bæði var efnið lofandi en umbúnaðurinn, ljósmyndir og hönnun með þeim hætti að mann grunaði að það ætti ekkert endilega að tjalda til einnar nætur.

Renta

Platan ber víst nafn með rentu, hefur verið í vinnslu í þrjú ár auk þess sem Bryndís hefur verið að semja tónlist frá unga aldri. Hún samdi öll lög og texta á plötunni fyrir utan eitt, „Engines Dead“, en þann texta sömdu Bryndís og Ewa Marcinek saman. Upptökustjórn og hljóðblöndun var að mestu leyti í höndum Daða Birgissonar, fyrir utan að í laginu „Engines Dead“ sá Andri Ólafsson um upptökustjórn og Kristinn Evertsson annaðist hljóðblöndun. Friðfinnur Oculus Sigurðsson sá um lokahljóðjöfnun á plötunni.

Segi það bara strax, þetta er afskaplega fín plata. Yfir henni, „sjarmi, elegans“ þó að enginn sé stiginn trylltur dans. Hljómar eins og fjórða plata listamanns, fremur en fyrsta. Kannski hefur þessi langa meðganga eitthvað með það að segja.  Heildaráferðin markast af reisn og íburði nánast. Þetta er voldug plata. Lögin, flest, rúlla áfram í ballöðutakti, angurvær og nánast gotnesk að byggingu. Fölleit eins og ég segi í fyrirsögn, rökkurbundin.

„Engines Dead“ opnar hana og er í bjartari kantinum, miðað við restina a.m.k. Píanó og smekklegir, lágværir strengir styðja við framvinduna. Eitt af því sem gerir plötuna er að það er aldrei farið offari í útsetningum, sem hefði svo léttilega verið hægt að gera. Daði passar vel upp á jafnvægið út í gegn. Söngrödd Bryndísar er góð og í nákvæmu samhengi við efni. Eilítið til baka, en sterk og þekkileg. Já, það er orðið, þetta er þokkafull plata.

Einkenni

„Fire‘s Burning Low“ er ágætlega einkennandi lag fyrir plötuna í heild. Gotneskt og dapurlegt, og listamenn eins og Sóley, Agnes Obel og Anna Von Hausswolff koma í hugann. „Ghost Stories“ (en ekki hvað!) ýjar að Kate Bush og það er smá Eivör jafnvel. En höfum það alveg á hreinu, þetta eru áhrif sem maður verður var við, ekkert verður til úr engu, en platan stendur á endanum sem giska frumlegt og persónulegt verk. Eftir tvö ár á ég eftir að líkja einhverjum við Febrúar vonandi. Ég er líka mjög hrifinn af þessum „Satie“-legu ósungnu stemmum eins og „Simple Dives“. Æðislegt!

Tilkomumikið verk verður að segjast þegar allt er saman tekið og algerlega magnaður frumburður. Úrvinnslan er reyndar svo sannfærandi, að ég vona að Febrúar haldi áfram og byggi ofan á þetta vel heppnaða verk.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Dramatískt og einlægt