Fimm fyrir indírokkþyrstan almúgann

Mynd með færslu
 Mynd: Daniel Topete - Partisan Records

Fimm fyrir indírokkþyrstan almúgann

12.06.2020 - 11:30

Höfundar

Það er índírokkið sem á sviðið í fimmunni að þessu sinni, verðskuldað því að senan virðist vera ranka við sér miðað við útgáfu ársins í ár og í fyrra. Við erum svo sem ekki enn komin upp í neitt sem heitir almennar vinsældir enn þá, en kannski átti það aldrei að vera þannig.

Fontaines D.C. – I Dont Belong To Anyone

Eftir að plata Dublin-drengjanna hressu, Dogrell, kom út í fyrra og sópaði til sín lofi gagnrýnenda og tónlistarunnenda hefur heimsbyggðin beðið í ofvæni eftir næsta skrefi drengjanna. Fyrsta skrefið var titillag næstu plötu sem kemur út í sumar, A Hero's Death, og nú kemur upphafslag plötunnar, I Don't Belong To Anyone, þar sem þeir virðast vera hræddir um að verða almenningseign með þeim skyldum sem fylgja því.


Flaming Lips – Flowers Of Neptune 6

Sýrurokkskóngarnir Flaming Lips hafa sent frá sér óvenju aðgengilegt lag miðað við sýrubombur síðustu ára úr þeirra herbúðum. Í Flowers Of Neptune 6 er allt gert fyrir aðdáendur huggulegri hliða bandsins, meira að segja hóað í kántríprinsessuna Kacey Musgraves í bakraddir.


Glass Animals – Dreamland

Þann 1. maí kom út titillag næstu plötu Oxford-sveitarinnar Glass Animals sem flestir áttu ekkert endilega von á að kæmi út. Ástæðu þess má rekja til umferðarslyss þar sem trommari sveitarinnar var keyrður niður á reiðhjóli í Dublin og slasaðist mjög alvarlega. En strákarnir eru komnir aftur í gang og hafa slegið nett í gegn með titillaginu af hinni væntanlegu Dreamland og nokkrum COVID-kóverum á undanförnum vikum.


Soccer Mommy – Crawling In My Skin

Frá 2015 hafa tónlistarunnendur og gagnrýnendur verið nokkuð vissir um að Sophia Regina Allison sem kallar sig Soccer Mommy ætti eftir að blómstra í bransanum. Eftir nokkur mixtape og eina stóra plötu sem hét Clean og kom út 2018, sendi hún á árinu frá sér plötuna Color Theory sem er að fá frábæra dóma og sumir vilja meina sé ein af þeim betri á árinu.


Waxahatchee – Lilacs

Katie Crutchfield, eða Waxahatchee, hefur verið að banka á dyr frægðarinnar undanfarin ár en virðist vera að ná heldur betur í gegn með nýju plötunni sinni Saint Cloud. Samkvæmt nýjustu fréttum úr tónlistarpressunni er stelpan líka ástfangin upp fyrir haus eftir nýlega ferð á snúruna.


Fimman á Spottanum