Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fengu 723 ára dóm fyrir hlaðborðssvik

12.06.2020 - 07:49
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Eigendur veitingastaðar nokkurs á Taílandi voru nýlega dæmdir til 723 ára fangelsisvistar fyrir svik. Mennirnir  tveir, Apichart Bowornbancharak og Prapassorn Bawornban, seldu gjafabréf á sjávarréttahlaðborð sem boðið var upp á á veitingastað þeirra á sannkölluðu gjafverði.

Hver miði kostaði 88 baht, sem er um 400 krónur. Eftir að hafa selt gjafabréfin breyttu þeir skilmálunum og dugði miðinn þá ekki lengur fyrir hlaðborðinu. Sjónvarpsstöðin CNN segir kvartanir hafa borist frá hundruð óánægðra viðskiptavina.

Saksóknari fullyrti fyrir réttinum að veitingastaðaeigendunum hefði verið fullkunnugt um að þeir gátu ekki staðið við tilboðið. Það væri ómögulegt að selja hágæða sjávarrétti líkt og auglýstir voru á þessu verði. Þeir hafi því aldrei ætlað sér að standa við tilboðið.

Þeir Bowornbancharak og Bawornban hafa setið í varðhaldi frá því í september í fyrra. Þeir játuðu strax sekt sína og fengu í kjölfarið dóm sinn lækkaða úr 1.446 árum niður í 723 ár, auk þess sem þeim var gert að greiða tæplega átta milljón króna sekt.

Úrskurðir taílenskra dómstóla hljóða oft upp á verulega langa fangavist. Samkvæmt taílenskum lögum þýðir það þó að þeim verður ekki gert að sitja lengur inni en 20 ár.
 

Anna Sigríður Einarsdóttir