Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fá engin laun, engan uppsagnarfrest og engar bætur

12.06.2020 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Bílar og fólk - Sterna Travel
Starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækisins Sternu Travel hefur ekki fengið greidd laun síðan í febrúar og sumt hefur þurft að bíða enn lengur. Eiganda fyrirtækisins tókst að afturkalla úrskurð um gjaldþrot og þar með á starfsfólkið ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum uppsagnarfresti.

Sterna Travel var úrskurðað gjaldþrota í byrjun mars, eftir að hafa ítrekað frestað því að greiða starfsfólki laun. Eigandinn fór fram á endurupptöku og úrskurðurinn var látinn falla niður. 

Starfsfólk fyrirtækisins stendur eftir tekjulaust og fyrirtækið skuldar því flestu laun fyrir marsmánuð og sumu lengur, auk uppsagnarfrests.  

Sterna Travel hefur haft sölubás og litla verslun í Hörpu í Reykjavík síðustu ár. 

„Óraunveruleg staða“ starfsfólksins  

„Við erum í óraunverulegri aðstöðu, þetta er þjófnaður“ segir Klaus Jenter í samtali við fréttastofu. Klaus hefur starfað sem leiðsögumaður og rútubílstjóri hjá fyrirtækinu frá árinu 2016 og segir fyrirtækið skulda sér launagreiðslur upp á að minnsta kosti milljón krónur. Hann hafi ekki fengið greidd laun síðan í febrúar og ekkert bóli á greiðslu vegna uppsagnarfrests. Þá skuldi eigandinn einnig mótframlag í lífeyrissjóði. 

Eigandi fyrirtækisins nýtir ekki úrræði stjórnvalda um stuðning vegna launa í uppsagnarfresti, en til þess þyrfti hann að greiða launin fyrst um sinn og fá svo endurgreiðslu frá Ríkisskattstjóra þrjátíu dögum síðar. Hann nýtir heldur ekki hlutabótaleiðina, en til þess þyrfti hann að greiða fyrir a.m.k. 25% vinnuframlag starfsmanna.  

Tilkynning um gjaldþrot var léttir  

Þann 4. mars síðastliðinn var Sterna Travel úrskurðað gjaldþrota og skiptastjóri sagði upp öllu starfsfólki fyrirtækisins. Í samtali við fréttastofu segir skiptastjórinn, Heiðar Ásberg Atlason, gjaldþrotið ekkert hafa haft með COVID-19 faraldurinn að gera. Fyrirtækið hafi skuldað talsverða fjármuni löngu áður en faraldurinn skall á. Stundin fjallaði um gjaldþrotið á sínum tíma.

Starfsmaður sem fréttastofa talaði við, og vildi ekki láta nafns síns getið, sagði gjaldþrotið að mörgu leyti hafa verið létti: „Þá gátum við byrjað gjaldþrotamál og áttum loks rétt á að sækja um greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði. Reyndar áttum við ekki rétt á greiðslum þaðan fyrr en 1. maí. En það var þó bót í máli að sjá fram á einhverjar tekjur“. 

Gjaldþrot afturkallað   

Tveimur vikum síðar var starfsfólkinu tilkynnt að gjaldþrotið hefði verið afturkallað. Eigandinn hafði þá farið fram á endurupptöku og úrskurðurinn um gjaldþrot var látinn falla niður að öllu leyti.   

Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. mars síðastliðnum er skýringin sú að eigandanum hafði ekki verið gert kunnugt um kröfuna fyrr en eftir að Héraðsdómur úrskurðaði gjaldþrot. Honum hafði því ekki gefist færi á að afstýra gjaldþrotinu áður en dómurinn féll eins og heimilt er. 

Starfsfólkið „dottið í glufu í kerfinu“  

Afturköllun gjaldþrotsins kom flatt upp á starfsfólkið. „Þá var maður skyndilega aftur starfsmaður Sternu og upp á fyrirtækið kominn um greiðslur. Við eigum rétt á uppsagnarfresti, sumir einum mánuði, aðrir þremur, sem við vissum vel að fyrirtækið myndi ekki greiða,“ segir starfsmaður sem óskaði eftir nafnleynd. 

Starfsfólkið var þannig skilið eftir tekju- og réttindalaust þegar gjaldþrotið var afturkallað. Ef eigandinn hefði ekki afturkallað úrskurðinn um gjaldþrot, sem að sögn skiptastjórans var löngu tímabær, hefði starfsfólkið átt rétt á að sækja strax um greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði. Nú þarf það að minnsta kosti að bíða þess að uppsagnarfresturinn renni út.  

„Þegar gjaldþrotið var afturkallað vissi ég að ég fengi engar bótagreiðslur fyrr en í júlí,“ segir Klaus, sem reiðir sig nú á fjárhagsstuðning frá félaga sínum til að ná endum saman. 

Sveinbjörn Hjörleifsson, leiðsögumaður og rútubílstjóri hjá Sternu Travel, segir starfsfólkið hreinlega hafa „dottið í glufu í kerfinu“. Hann segir óánægju starfsfólksins þó fyrst og fremst beinast að eiganda fyrirtækisins.  

Bað starfsfólk að taka við uppsagnarbréfi aftur í tímann  

Tveir starfmenn segja eigandann hafa beðið sig að taka við uppsagnarbréfi þrjá mánuði aftur í tímann. Þannig hefði hann reynt að sleppa við að greiða vangoldin laun og uppsagnarfrest. Þeim fannst báðum óhugsandi að hann kæmist upp með það: ,,Fyrirtækið skuldar okkur laun, uppsagnarfrest og orlof, auk þess sem eigandinn hefur í heilt ár hvorki greitt í lífeyrissjóði né mótframlög til stéttarfélaga.“  

Sveinbjörn segir alvarlegast að starfsfólkinu sé haldið í „limbói“. Hann segir skeytingarleysi eigandans algjört og starfsfólkið flest standa frammi fyrir algerri neyð. 

Ekki náðist í eiganda fyrirtækisins við gerð fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.