Einkennalausir borgi 11.000 eftir 1. júlí

12.06.2020 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Farþegar sem koma hingað til lands frá og með næstkomandi mánudegi og hafa dvalið meira en sólarhring síðastliðna 14 daga í löndum sem sóttvarnalæknir skilgreinir sem áhættusvæði þurfa að forskrá sig og fylla út rafrænt eyðublað með ýmsum upplýsingum til að eiga kost á sýnatöku. Fari þeir ekki í sýnatöku þurfa þeir að vera 14 daga í sóttkví. Frá og með 1. júlí þarf einkennalaust fólk að greiða 11.000 krónur fyrir sýnatöku á heilbrigðisstofnunum.

Þetta kemur fram í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Hún tekur gildi á mánudaginn og á sama tíma taka gildi fagleg fyrirmæli landlæknis um gjaldfrjálsa sýnatöku fyrir þá sem sýna einkenni sjúkdómsins. Að auki taka þá gildi breytingar á reglugerð um sóttvarnaráðstafanir.

Þar segir að farþegar í tengiflugi þurfi hvorki að sæta sóttkví né sýnatöku og það sama gildir um börn sem eru fædd árið 2005 eða síðar og þá sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest að hafi veikst af COVID-19 og lokið einangrun.

Sýnatakan verður gjaldfrjáls til loka júnímánaðar, en eftir það verða innheimtar 15.000 krónur.

Fólk með einkenni fær ókeypis skimun

Á vefsíðu Heilbrigðisráðuneytisins segir að hver sá sem sýni einkenni COVID-19 eins og þau eru skilgreind í faglegum fyrirmælum landlæknis, eigi rétt á sýnatöku á heilbrigðisstofnun sér að kostnaðarlausu, óháð því hvort viðkomandi sé sjúkratryggður hér á landi. Sá sem óski eftir sýnatöku, en sé ekki með einkenni sjúkdómsins, beri sjálfur kostnað af sýnatökunni. Gjaldið verður 11.000 krónur frá og með 1. júlí.

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi