Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

36 ára karl dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára

12.06.2020 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fertugur karlmaður var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku í Landsrétti í dag. Maðurinn var 36 ára þegar brotið var framið. Honum var gert að greiða stúlkunni 1,2 milljónir króna í miskabætur.

Manninum var gefið að sök að hafa tvisvar sinnum á þriggja mánaða tímabili fyrrihluta árs 2016 farið með stúlkunni á heimili sitt þar sem hún veitti honum munnmök og þau höfðu samræði. 

Samkvæmt framburði brotaþola og ákærða hittust þau tvisvar á tímabilinu en auk þess áttu þau í samskiptum á netinu. 

Maðurinn var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember á síðasta ári. Hann var dæmdur í 15 mánaða fangelsi og var gert að greiða stúlkunni 1,2 milljón króna.

Maðurinn neitaði sök og sagðist ekki hafa átt nokkurs konar kynferðislegt samneyti við stúlkuna. Hann sagði hana þó hafa komið einu sinni á heimili sitt til þess að nota salerni. 

Í dómi Landsréttar segir að brotaþoli hafi staðfastlega haldið því fram að málsatvik hafi verið með þeim hætti sem lýst var í ákæru og að manninum hafi verið kunnugt um aldur stúlkunnar.

Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til mikils aldursmunar milli sakbornings og brotaþola.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV