Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útilokað að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar

11.06.2020 - 09:00
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Nú líður að því að gerð verður upp losun gróðurhúsalofttegunda fyrir Kýótótímabilið og ljóst að Íslendingar eru langt frá því að standa við skuldbindingar sínar. Kýótótímabilið líður undir lok á næsta ári og við tekur tímabil Parísarsáttmálans. Íslendingar þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir þúsundir kílótonna af gróðurhúsalofttegundum til að hægt sé að gera upp Kýótótímabilið.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda

Umhverfisstofnun skilar árlega landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda til Evrópusambandsins og skrifstofu yfirstjórnar loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Skýrslan um losunarbókhaldið fyrir 2018 var birt um miðjan apríl en kynnt 10. júní. Hún greinir frá losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti á Íslandi fyrir árið 2018.   

Sagt er frá allri losun frá Íslandi, bæði þeirri sem er beinlínis á ábyrgð íslenskra stjórnvalda gagnvart skuldbindingum við ESB og einnig þeirri losun sem fellur undir skuldbindingar samkvæmt viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Losunarbókhaldið nær einnig yfir losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt ásamt alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum.

Jókst um 30% en átti að minnka um 20%

Frá árinu 1990 hefur heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi aukist um rúmlega 30% en samkvæmt Kýótóbókuninni lofuðu Íslendingar að draga úr losun um 20% árið 2020 miðað við árið 1990.  Engar líkur eru á að hægt verði að standa við þau loforð. 

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi stóð nánast í stað milli áranna 2017 og 2018, jókst um 0,4% 

Losun frá vegasamgöngum jókst um 2,7%, málmframleiðslu um 1,2% og fiskiskipum 3,3%. Hún dróst saman frá kælimiðlum um 12%, landbúnaði um 4,7% og olíunotkun á vélum og tækjum dróst saman um 20%. 

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson
Landsskýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report)

Losun á ábyrgð stjórnvalda og íbúa landsins

Losun sem er á ábyrgð stjórnvalda er sú losun sem íslenska ríkið og íbúar á Íslandi eru ábyrgir fyrir.  Hún var nánast óbreytt milli áranna 2017 og 2018, dróst saman um 0,1%  Lang mest losun er frá orku og er stórt hlutfall losunarinnar, um helmingur frá vegasamgöngum.

 

Ekki ljóst hvað kostar að kaupa losunarheimildir

Losun gróðurhúsalofttegunda náði hámarki árið 2007 en dróst aðeins saman eftir efnahagshrunið þegar flestir dróu úr neyslu. Frá árinu 2011 hefur losun gróðurhúsalofttegunda verið tiltölulega stöðug.  

Ásta Karen Helgadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sagði á kynningarfundi stofnunarinnar það væri ekki nógu gott. Búið sé að áætla losun Íslands fyrir allt tímabili Kýótóbókunarinnar sem  nær frá 2013 til 2020. 

„Og miðað við reiknaða losun síðustu ára og áætlaða losun fyrir 2019 og 2020 er búist við að Ísland muni losa hátt í 24 þúsund kílótonn CO2-íg frá 2013 til 2020. En Ísland fekk aðeins úthlutað rúmlega 15 þúsund kílótonnum í gegnum samning við Evrópusambandið fyrir þetta tímabil og þið sjáið að þetta er augljóslega ekki að fara að duga fyrir áætlaðri heildarlosun okkar yfir tímabilið.“

Þegar búið sé að taka með í reikninginn einingar sem koma frá skógrækt á móti losuninni megi gera ráð fyrir að ennþá vanti um það bil 4000 kílótonn af CO2-íg umfram inneign. Íslenska ríkið þurfi að kaupa losunarheimildir fyrir mismuninum. Ekki er ljóst hve mikill sá kostnaður verður.

epa06124212 Emissions are seen from a factory at Broadwater in far northern New South Wales, Australia, 31 July 2017 (issued 04 August 2017. Australian media outlets report, 04 August 2017, that there is doubt Australia will meet emission cuts in the Paris agreement after a report from Australia's National Greenhouse Gas Inventory revealed a trend of increasing emissions in Australia. The level of emissions has reportedly increased since the government repealed a tax on carbon intensive companies in 2014.  EPA/DAVE HUNT  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA - AAP

Tímabil Parísarsamkomulagsins að hefjast

Kýótótímabilinu lýkur á þessu ári og verður líklega gert upp árið 2023. Tímabil Parísarsamkomulagsins hefst á næsta ári og gildir til 2030. 
Fyrir það tímabil hafa ESB aðildarríkin, ásamt Íslandi og Noregi, sett sér sameiginlegt markmið um 40% samdrátt í losun árið 2030 miðað við 1990. Ísland hyggst draga úr losun um 29% árið 2030 miðað við árið 2005.

Losun gróðurhúsalofttegunda minnkaði um 0,1% á milli ára nú og ljóst að Íslendingar þurfa að gera mun betur ef þeir eiga að geta staðið við Parísarsamkomulagið.  

Ásta Karen sagði  á kynningarfundinum um losunarbókhaldið að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi gefið út metnaðarfulla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum haustið 2018 og sefnir að því að gefa út uppfærða útgáfu á næstunni með fjölmörgum aðgerðum sem eiga að stuðla að hraðari samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV