Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast að tekjutengingar standi í vegi hlutdeildarlána

Mynd: Skjáskot / RÚV
Kristján Þórður Snæbjarnarson, varaforseti Alþýðusambands Íslands, óttast að tekjutengingar vegna hlutdeildarlána sem félagsmálaráðherra kynnti í dag geti staðið í vegi fyrir því að nýja úrræðið virki.

Hugmyndin er sú að væntanlegur kaupandi leggi að lágmarki til fimm prósent eigin fjár við íbúðarkaup, fái 75 prósent að láni hjá lánastofnun og að ríkið láni þau 20 prósent sem eftir standa. Hvorki þarf að greiða vexti né afborganir af hlutdeildarlánunum á lánstímanum nema tekjur fólks fari yfir tekjumörk í þrjú ár samfellt á lánstímanum.

Kristján Þórður segir að hlutdeildarlán séu mjög brýn til að bæta stöðu fólk í húsnæðismálum. Hann telur hins vegar að tekjutengingarnar sem eru skilyrði fyrir því að komast að í úrræðinu séu óheppilegar. Einstaklingur má mest hafa 7,6 milljónir í árslaun og hjón að hámarki 10,6 milljónir. Kristján Þór lýsir einnig áhyggjum af því að gert sé ráð fyrir því að 40 prósent af ráðstöfunartekjum einstaklinga fari til þess að greiða af lánunum. „Síðan eru ákvæði um að ef fólk fer umfram þessi tekjumörk þá fari fólk að greiða vexti af þeim upphæðum sem eru ákvarðaðar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.“

Kristján Þórður segir mikilvægt að hjálpa þeim tekjulægri, og þegar sé unnið að því. „Við erum hins vegar að horfa á þetta úrræði sem ætti að vera almennara úrræði fyrir alla þá sem þurfa og vilja komast út á húsnæðismarkaðinn. Við teljum að þessi tekjumörk séu það hamlandi að þau geti staðið í vegi fyrir virkni úrræðisins.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV