Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óska eftir umsögnum um mögulega friðun fyrir fiskeldi

11.06.2020 - 13:43
default
 Mynd: Rúv
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur óskað eftir því við Fiskistofu, Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun, og viðkomandi sveitarstjórnir, að veita umsögn um hvort rétt sé að lýst verði yfir banni við laxeldi í sjókvíum. Hart hefur verið deilt um mögulega friðun í Eyjafirði.

Ráðherra getur takmarkað eða bannað fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart fiskeldi, að fengnum umsögnum sem nú er óskað eftir.

Auk Eyjafjarðar er óskað eftir umsögnum varðandi Jökulfirði, sem ganga inn úr Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum, og Viðifirði og Hellisfirði í sunnanverðum Norðfjarðarflóa á Austfjörðum.

Umdeilt í Eyjafirði

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í síðasta mánuði að leggja til við sjávarútvegsráðherra að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi. Bæjarráð Fjallabyggðar vill hins vegar ekki að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi.

Í Fjallabyggð hafa verið áform um sjókvíaeldi og vinnslustöð fyrir lax í Ólafsfirði sem skapað gæti allt að 70 störf. Bókun Akureyringa fellur þess vegna í grýttan jarðveg þar.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, stjórnar opnum fundi í Hofi á Akureyri í kvöld þar sem rædd verða fiskeldismál í Eyjafirði. Þar verða einnig fulltrúar veiðiréttarhafa og fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.