Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Mjög þungt mál og það styttist í verkfall“

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Engin niðurstaða varð á samningafundi hjúkrunarfræðinga og ríkisins í dag. Formaður félags hjúkrunarfræðinga segir stöðuna mjög alvarlega og undirbúningur verkfalls sé í fullum gangi. Næsti fundur verður á mánudag.

Klukkan tifar í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga, ef ekki nást samningar á næstu tíu dögum eða fyrir 22. júní fara 2600 hjúkrunarfræðingar í ótímabundið verkfall þann dag.

Ríkissáttasemjari boðaði til fundar í deilunni í dag, og stóð hann í tæpa klukkustund. „Það er ekki niðurstaða í neinum atriðum í dag. Þetta er mjög þungt mál og það styttist í verkfall. Samtalið er lausnamiðað þó að það sé þungt,“ segir Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins

„Staðan er bara mjög alvarleg hjá okkur en við erum enn þá að tala saman og við ætlum að hittast á mánudaginn,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Um helgina vinna samninganefndirnar hvor um sig í afmörkuðum atriðum samningsins. „Við erum núna í vissum málaflokkum, ekki í þessum efnum sem mest hefur verið ágreiningur um,“ segir Guðbjörg jafnframt.

„Það eru ákveðin atriði sem snúa að starfskjörum og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga en auðvitað er það launaliðurinn sem stendur út af og við ræðum hann líka,“ segir Sverrir.

Kröfur hjúkrunarfræðinga eru umfram lífskjarasamninginn. Fjármálaráðherra sagði á Alþingi í vikunni að það væri ekki hægt að sprengja forsendur almennrar kjarasamningagerðar ríkisins.  „Við erum að undirbúa verkfallið fyrir 22. júní og höldum því bara áfram á meðan staðan er eins og hún er,“ segir Guðbjörg.