Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Landlæknir telur að verkfall hefði áhrif á skimun

11.06.2020 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landlæknir telur líklegt að fyrirhugað verkfall hjúkrunarfræðinga komi til með að hafa áhrif á sýnatöku vegna COVID-19 á landamærum. Þó fleiri starfstéttir geti tekið sýnin þá sé verkefnið á ábyrgð lækna og hjúkrunarfræðinga.

Haft var eftir landlækni í Fréttablaðinu í morgun að hægt væri að halda skimun áfram óraskaðri þó að kæmi til verkfalls hjúkrunarfræðinga. „Ég var spurð um það hvaða starfstéttir gætu tekið svona sýni og ég vísaði til verkefnisins hjá Íslenskri erfðagreiningu - þar voru það fjölmargar starfstéttir sem komu að sýnatökunni, þannig að það er alveg ljóst að það eru fleiri en hjúkrunarfræðingar sem að geta tekið sýni,“ segir Alma Möller landlæknir. 

Sjá einnig: „Ekki eitthvað bara að setja pinna upp í nef á fólki“

Verkfall hjúkrunarfræðinga, ef til þess kemur, hefði að sögn Ölmu að öllum líkindum áhrif á skimun á landamærum, þó óvíst sé hve mikil þau áhrif verða. „Það eru allar líkur á því að það muni hafa áhrif á sýnatökuna því að þetta verkefni er þannig uppbyggt að það er leitt af hjúkrunarfræðingum á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins,“ segir Alma. „En hvort að það stöðvast alveg eða verður hökt á því það veit ég ekki, og það fer auðvitað líka eftir því hvernig undanþágubeiðnir verða meðhöndlaðar og svo framvegis.

Starfsmenn verða þjálfaðir í að taka sýni

Fleiri en hjúkrunarfræðingar komi til með að taka sýni, undir leiðsögn lækna og hjúkrunarfræðinga. „Það stendur til að þjálfa starfsmenn í að taka sýni, og þjálfunina veita læknar og hjúkrunarfræðingar, og þeir bera þá líka ábyrgð á þessum starfsmönnum,“ segir Alma.