Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Finna fyrir tímapressunni

11.06.2020 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Ríkissáttasemjari segir kjaraviðræður hjúkrunarfræðinga og ríkisins mjög erfiðar og þungar, en vel sé unnið í málinu. Hann segir fólk við samningaborðið finna fyrir tímapressunni, vegna boðaðs verkfalls hjúkrunarfræðinga.

Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins komu saman til fundar hjá ríkissáttasemjara klukkan hálfþrjú, en síðasti fundur í deilunni var á mánudadag. Fundinum í dag lauk á fjórða tímanum.

„Þetta eru mjög þungar og erfiðar samningaviðræður og flóknar, en samninganefndirnar vinna mjög vel  og koma mjög vel undirbúnar til fundar og við eigum mjög hreinskiptar og uppbyggilegar umræður. Þetta var góður fundur í dag og síðan ætlum við að vinna ákveðin verkefni á morgun o gum helgina og hittast síðan aftur klukkan tvo á mánudaginn og halda áfram okkar samtali,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

Sem kunnugt er hafa hjúkrunarfræðingar boðað til verkfalls 22. júní takist ekki samningar fyrir þann tíma. Aðalsteinn segir fólk við samningaborðið finna fyrir tímapressunni.

„Samninganefndirnar finna mjög þétt fyrir þeirri ábyrgð sem að hvílir á báðum aðilum og það eru allir að leggja sig fram til þess að ná samningum , en , eins og ég segi, þetta eru þungar og erfiðar viðræður. Þetta er ekki létt verk, en ivð gerum allt sem við getum.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV