Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bróðir minn Ljónshjarta - Astrid Lindgren

Mynd: Forlagið / Forlagið

Bróðir minn Ljónshjarta - Astrid Lindgren

11.06.2020 - 08:39

Höfundar

Bók vikunnar er Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren sem Þorleifur Hauksson þýddi og las í Morgunstund barnanna í Ríkisútvarpinu árið 1974, aðeins ári eftir að bókin kom út í Svíþjóð. Þýðingin kom síðan út á bók tveimur árum síðar og hefur síðan verið endurútgefin ótal sinnum.

Bróðir minn Ljónshjarta telst til sígildra barnabóka í dag en hún var umdeild þegar hún kom út enda þar fjallað um afar viðkvæm málefni en dauða barns, sjálfsvíg og hvað tekur við eftir dauðann. Í sögunni segir frá bræðrunum Jónatan og Karli sem er kallaður Snúður og það er hann sem segir söguna. Karl er þungt haldin af sjúkdómi sem fyrr en seinna mun draga hann til dauða. Jónatan huggar bróður sinn andspænis þessum yfirvofandi örlögum með því að segja honum ævintýri frá landinu Nangiala en það er landið þar sem lífið heldur áfram eftir dauðann.

Dauðinn þarf ekki að vera illur

Svo fer að þeir bræður ferðast báðir til Nangiala, fyrst Jónatan og síðan Karl. Þeir hittast á endanum mitt í miklum róstum milli tveggja dala í landinu Nangiala, Kirsuberjadalsins og Þyrnirósadalsins. Jónatan er hluti af andspyrnuhreyfingu Kirsuberjadalsins, sem Örvar leiðir, gegn ómenninu Þengli sem hefur með aðstoð drekans Kötlu lagt landið undir sig og kúgar fólkið í dölunum báðum. Sagan er stórkostleg ævintýrasaga um baráttu góðs og ills, lífsins og dauðans og lífið er ekki alltaf gott og dauðinn ekki alltaf illur.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Astrid Lindgren.

Astrid Lindgren er líklega frægasti barnabókahöfundur allra tíma. Hún fæddist árið 1907 og óslt upp á prestsetrinu í Vimmerby í sænsku Smálöndunum. Sem ung kona starfaði hún sem blaðamaður og á þessum tíma eignaðist hún soninn Lars sem hún neyddist til að koma fyrir hjá fósturfjölskyldu fyrstu árin. Hún var einstæð móðir og engin barnaheimili né aðra hjálp að fá.

Vinir barna heimsins

Eftir að Astrid giftist skrifstofustjóranum Sture Lindgren tók hún soninn til sín. Hún eignaðist síðan eina dóttur og gerðist heimavinnandi húsmóðir og mun hafa sagt börnum sínum sögur og ævintýri á hverju kvöldi. Þessar sögur og ævintýri urðu síðar uppistaðan í þeim fjölmörgu barnabókum sem hún sendi frá sér um ævina eins og bækurnar um Börnin í Ólátagarði, um Línu langsokk, Emil í Kattholti, Lottu á Saltkráku og Kalla Blómkvist svo einhverjar þeirra persóna sem orðið hafa vinir barna um allan heim á öllum tímum séu nefndar.

Umsjónarmaður þáttarins Bók vikunnar að þessu sinni er Auður Aðalsteinsdóttir og viðmælendur hennar eru Dagný Kristjánsdóttir prófessor íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og Snæbjörn Brynjarsson rithöfundur. Í spilaranum hér að ofan má hlusta á Þorleif Hauksson lesa upphaf ævintýrasögunnar Bróðir minn Ljónshjarta sem og kafla síðar úr bókinni þegar bræðurinir eru báðir þátttakendur í átökunum í Nangiala. Á milli lestranna er svo rætt við Þorleif um söguna, vinnuna við þýðinguna og mikilvægi barnabóka.

Hlusta má á þáttinn hér:

Mynd: Ilon Wikland / Ilon Wikland

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Stríðsdagbækur Lindgren gefnar út

Menningarefni

Heimili Lindgren gert að safni

Menningarefni

Skapaði Astrid Lindgren Smálönd?

Erlent

Kvikmynd um Astrid Lindgren