Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja ekki vindorkuver á Hróðnýjarstöðum

10.06.2020 - 11:49
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Sveitarstjórn Dalabyggðar ákveður í næstu viku hvort breyta eigi aðalskipulagi til þess að greiða fyrir byggingu vindorkuvers. Nágrannar jarðarinnar mótmæla og segja vindorkuverk ekki eiga heima í byggð.

Fyrirhugað vindorkuver fyrirtækisins Storm orku í landi Hróðnýjarstaða í er eitt tveggja sem áform eru uppi um að reisa í Dalabyggð.

Samkvæmt tillögu að matsáætlun á vindorkugarðurinn að framleiða allt að hundrað til 130 megavött af rafmagni. Sem stendur ber flutningskerfi raforku 85 megavött, sem er framleiðslugeta átján til 24 vindmylla. Þær verða 180 metrar á hæð og eiga eftir að sjást úr allt að 40 kílómetra fjarlægð.

Telja hagsmunum sínum ógnað

Ábúendur bæja í nágrenni Hróðnýjarstaða telja hagsmunum sínum ógnað. Bæði vegna sjón- og hljóðmengunar en einnig þar sem þeir telja að eignir sínar falli í verði.

Sigurður Sigurbjörnsson er frá Vígholtsstöðum, næsta bæ við Hróðnýjarstaði.

„Ég bara trúi því ekki, og við, að einhver einstaklingur og einstaklingar í nafni einhvers fyrirtækis geti komið og keypt landbúnaðarjörð, breytt henni í iðnaðarsvæði við hliðina á búandi fólki á næstu jörðum og opnað þar stórt orkuver. Þetta er svo galið,“ segir hann.

Sveitarfélagið hafnar skorti á samráði

Sigurður segir þá að skortur á samráði af hálfu Dalabyggðar hafi einkennt ferlið. Þessu hafnar Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti í Dalabyggð.

„Allan tímann hafa öll gögn legið uppi á borðinu. Öll fylgigögn eru birt með fundargerðum sveitarfélagsins. Menn hafa haft fjölmörg tækifæri til þess að koma með athugasemdir og viðkomandi aðilar hafa bert það.“

Þá áréttar Eyjólfur að breyting á aðalskipulagi feli ekki í sér framkvæmdaleyfi.

„Það eru ótal skref eftir í ferlinu þangað til má rísa vindmylla í Dalabyggð.“

Skerpa þarf á hvernig málefnum vindorku er hagað

Hann segir hins vegar að hið opinbera þurfi að skerpa á því hvernig málefnum vindorku skal hagað hér á landi. það taka landeigendur undir, en vilja að sveitarfélagið bíði með skipulagsbreytingar þar til regluverk er komið til.

„Við skiljum ekki alveg af hverju sveitarfélaginu liggur svona mikið á. Á meðan ekki eru til reglur um nýtingu vindorku og hvernig eigi að fara með þessi mál,“ segir Sigurður.