Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Útlendingar utan Schengen mega koma 1.júlí

10.06.2020 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Útlendingum utan Schengen-svæðisins er áfram óheimilt að koma til landsins, nema vegna brýnna erinda, eftir losun ferðatakmarkana á mánudag. Eftir sem áður geta Íslendingar og ríkisborgarar ESB, EFTA og Bretlands komið til landsins, líka þegar þeir sem koma frá löndum utan Schengen.

 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mælir með því að ríki sambandsins byrji að opna landamæri sín fyrir umferð utan Schengen-svæðisins frá og með 1. júlí, og að opnað verði í nokkrum skrefum. Frá þessu var greint í dag.

Ekki ætla öll ríki ESB að bíða fram í júlí með að opna. Grikkir hafa til að mynda tilkynnt að þeir heimili á ný flug frá Ástralíu, Kína og Suður-Kóreu 15. júní. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að stefnt sé að því opna ytri landamæri Íslands í síðasta lagi 1. júlí, hvort sem önnur ríki innan Schengen opni hjá sér eða ekki. Til þess þarf að setja upp sérstakt brottfaraeftirlit á landamærunum fyrir farþega sem ætla að ferðast frá Íslandi til Evrópu. Unnið er að uppsetningu þess og útfærslu á Keflavíkurflugvelli. Að öllum líkindum þarf sams konar brottfaraeftirlit á öðrum landamærastöðvum; á Seyðisfirði, Egilsstöðum, Akureyri og í Reyjavík.

Frá 20. mars hafa landamæri Schengen-svæðisins verið lokuð öðrum ríkjum , nema vegna brýnna erinda. Íslendingum og ríkisborgurum ESB, EFTA og Bretlands hefur allan tímann verið heimilt að ferðast til Íslands, hvort sem þeir voru að koma frá ríkjum utan Schengen eða innan, en þurftu þá að sæta sóttkví. Eftir 15. júní geta þeir sleppt sóttkví og farið í COVID-19 sýnatöku í staðinn. Þegar ytri landamærin opna 1. júlí mun það sama gilda um alla sem koma.

Bandaríkjamenn stefna á að opna á ferðalög til Evrópuríkja 22. júní. Það hefur þó ekki verið staðfest.