Frelsaðir Talíbanar ákveðnir að hefja bardaga að nýju

10.06.2020 - 06:23
Mynd með færslu
Liðsmenn Talibana í Afganistan. Mynd:
Yfirvöld í Afganistan hafa sleppt þúsundum Talíbana lausum úr fangelsi í þeirri von að uppreisnaröflin í landinu hefji friðarviðræður við stjórnina í Kabúl. Von til þess jókst eftir að uppreisnarmenn höfðu lýst yfir þriggja daga vopnahléi í maí meðan Eid al-Fitr helgidagarnir stóðu yfir.

Óttast er að nýfrjálsir bardagamennirnir standi frekar við orð sín um að halda áfram heilögu stríði. Einn þeirra, Mohamed Daud, sagði svo verða ef Bandaríkjamenn kæmu sér ekki burt úr landinu enda hafi þeir orðið fjölda Afgana að bana.

Daud, sem hafði setið í fangelsi í níu ár, sagði nóg komið af erlendri hersetu í landinu.

Meðal þeirra sem sleppt hefur verið úr haldi eru sjálfsmorðsvígamenn, framleiðendur sjálfsmorðsvesta, mannræningjar og bardagamenn af erlendum uppruna.

Áður en fangarnir voru látnir lausir var þeim gert að undirrita heit þess efnis að þeir gripu ekki til vopna á ný. Æ ljósara virðist að þeir muni ekki standa við þau loforð.

Foringi í liði Talíbana í Pakistan segir að engum blöðum sé um það að fletta að þessir menn yrðu fyrr eða síðar kallaðir til baráttu í fremstu víglínu í Afganistan. Barátta Talíbana muni halda áfram nema því aðeins að samkomulag náist við stjórnina í Kabúl.

Andúðin gegn bandaríska herliðinu í landinu er mikil en Talíbanar halda aftur af sér í viðureigninni við það enda var griðasáttmáli undirritaður í febrúar síðastliðnum. Hann byggir á fyrirhuguðu brotthvarfi bandarískra hersveita fyrir árið 2021.

Átök uppreisnarmanna Talíbana eru því fyrst og fremst við sveitir stjórnarinnar enda hefur enginn friðarsamningur verið gerður við hana.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi