Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Frakkland: Kallað eftir trausti til lögreglu

10.06.2020 - 04:49
epa08475846 Protesters take part in a demonstration to show support for the George Floyd protests and denounce police brutality and racism, on Place de la Republique in Paris, France, 09 June 2020. Protesters gathered as of 6pm local time, coinciding with the funeral of George Floyd in Houston, Texas - after he was killed in police custody in the US on 25 May 2020 sparking protests across the United States and globally.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir Parísarbúa söfnuðust saman og vottuðu George Floyd virðingu sína á sama tíma og útför hans var gerð í Texas í gær.

Lögregla segir 2400 manns hafa tekið þátt en skipuleggjendur sem kalla sig SOS Racisme segja fjöldann hafa verið nær 12 þúsundum.

Á spjöldum sem samkomugestir báru mátti sjá samanburð á örlögum Floyds og fólks sem nýlega hefur látist í höndum franskrar lögreglu. Mótmælin í Frakklandi undanfarið hafa öðrum þræði hverfst um afdrif Adama Traore, ungs blökkumanns sem lést í höndum lögreglunnar árið 2016.

Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, fullyrðir að kynþáttafordómar þekkist vart innan raða lögreglunnar þar í landi, sem hefur þó legið undir ámæli um slíkt.

Ráðherrann var ekki viðstaddur viðburðinn en segir viðamikil viðbrögðin við andláti Floyds vera góð og gild, enda þurfi allir að bregðast hart við vísbendingum um kynþáttaníð.

Jean-Luc Melenchon formaður stjórnarandstöðuflokksins Óbugaðs Frakklands segir sterka hreyfingu í landinu gegn rasisma innan lögreglunnar, enda vilji enginn sjá slíkt þar.

Edouard Philippe kallar eftir trausti og virðingu í garð lögreglunnar og áréttar að almenningur eigi að gera ríka kröfu um að störf hennar séu til fyrirmyndar.