Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fékk orðabók til að breyta skýringu á kynþáttafordómum

10.06.2020 - 22:40
epa08476242 Protesters participate in a social distance, Kneeling for Justice, and a memorial and celebration of George Floyd at City Hall in San Francisco, California, USA, 09 June 2020. A bystander's video posted online on 25 May, appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck. The unarmed Black man later died in police custody and all four officers involved in the arrest have been charged and arrested.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ung kona fékk bandarísku Merriam-Webster orðabókina til að breyta skilgreiningu á kynþáttafordómum þannig að hún næði einnig yfir kerfisbundna kúgun. „Mér finnst mjög mikilvægt að fólk sé á sömu blaðsíðu,“ segir Kennedy Mitchum.

BBC greinir frá og segir að MItchumm hafi sent tölvupóst á útgefanda orðabókarinnar vegna þess að fólk þrætti fyrir kynþáttafordóma sína við hana með því að vísa í skilgreininguna í orðabókinni.

Mitchum er dökk á hörund og segir að henni hafi fundist vanta upp á skilgreininguna og að hún hafi verið þeirrar skoðunar í fjögur ár eða svo. Þúsundir manna hafa mótmælt kynþáttafordómum í borgum víðs vegar um heiminn allt frá því lögreglumaður varð George Floyd að bana í Minneapolis í Bandaríkjunum 25. maí. Mótmæli hófust í borginni og breiddust svo út til allra ríkja Bandaríkjanna og svo út fyrir landsteinana. 

Mitchum er nýútskrifuð úr Drake háskólanum í Iowa, og segir BBC að hún hafi tjáð sig á samfélagsmiðlum um upplifun sína í skóla og að margt teldist kynþáttafordómar sem ekki væri augljóst. Hún segir að fólk hafi vísað í orðabókina til að reyna að sýna fram á að hún hefði rangt fyrir sér og að hún skildi ekki hvað kynþáttafordómar væru. Hún væri jú í háskóla og væri því í forréttindastöðu. Mitchum segist hafa svarað að fordómarnir snerust frekar um þær hindranir sem hún hefði þurft að komast yfir á grundvelli húðlitar síns og þeirra kerfa sem séu til staðar í samfélaginu. 

Hún hafi því haft samband við Merriam-Webster í lok maí og bent á að kynþáttafordómar væru einnig kerfislægir. Kerfi þar sem aðstöðumunur væri á grundvelli húðlitar. Henni til undrunar fékk hún svar strax næsta dag og eftir nokkur samskipti sagði fyrirtækið að taka yrði á þessu máli fyrr en síðar og að breytingar yrðu gerðar. 

Skilgreiningin verði látin ná einnig yfir kerfislæga mismunun og að minnsta kosti tvö dæmi gefin með setningum. Stefnt sé að því að endurbótum verði lokið í ágúst.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV