Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bandaríkin opna ræðismannsskrifstofu í Nuuk

10.06.2020 - 18:14
Mynd með færslu
Nuuk. Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Bandaríkin hafa opnað ræðismannsskrifstofu í Nuuk höfuðstað tæplega sjötíu árum eftir að síðast var starfandi ræðismaður þar. Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, segir að ræðismannsskrifstofan sé til marks um sterkt samband milli stjórnvalda í Bandaríkunum, Danmörku og Grænlandi.

Tæpt ár er liðið frá því Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti áhuga á að kaupa Grænland við vægast sagt dræmar undirtektir ríkisstjórnar Danmerkur. Trump hætti í framhaldinu með skömmum fyrirvara við boðaða heimsókn til Danmerkur á þeim forsendum að Mette Frederiksen forsætisráðherra vildi ekki ræða þetta við hann. 

Í apríl var tilkynnt að Bandaríkjastjórn ætlaði að veita Grænlendingum fjárstyrk sem nemur 12,1 milljón bandaríkjadala, jafnvirði um 1,8 milljarðs króna, til námuvinnslu, ferðaþjónustu og menntunar. 

Danmörk fer með utanríkismál Grænlands sem er með sitt eigið þing. Á Grænlandi má finna miklar náttúruauðlindir; olíu, gas, demanta, úran og sink . Augu bandarískra, rússneskra og kínverskra stjórnvalda hafa beinst að Grænlandi í auknum mæli vegna þess að þar kunna nýjar siglingaleiðir að opnast vegna loftslagsbreytinga. 

Bandaríkin opnuðu síðast ræðismannsskrifstfou á Grænlandi árið 1940 eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku en henni var lokað árið 1953. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir