Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

39% stúdenta enn í atvinnuleit í upphafi sumars

10.06.2020 - 09:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrjátíu og níu prósent háskólanema á Íslandi sögðust ekki vera komin með öruggt sumarstarf seint í maí. Þetta kemur fram í könnun sem Stúdentaráð Háskóla Íslands gerði í samvinnu við LÍS og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs HÍ, segir í viðtali við fréttastofu að niðurstöðurnar séu sláandi.

Nemendur svöruðu könnuninni 14.-24. maí en einnig var spurt um fjárhagsáhyggjur og andlega líðan. Könnunin leiddi í ljós að 54,9 prósent stúdenta eiga erfitt með að mæta útgjöldum í sumar og 46,9 prósent sögðu að á skalanum 1-10 væri andleg líðan þeirra fimm eða lægri. 

Stúdentaráð hefur þegar gert tvær kannanir á líðan og fjárhagsstöðu háskólastúdenta í COVID-faraldrinum. Í könnun sem gerð var 6. apríl sögðust 40% háskólastúdenta sjá fram á atvinnuleysi í sumar

Nemar eiga ekki ekki rétt á atvinnuleysisbótum á sumrin og Stúdentaráð hefur gagnrýnt það að margir stúdentar greiði í atvinnuleysistryggingasjóð en eigi samt sem áður ekki rétt á bótum, ekki einu sinni á krísutímum.

Nýju störfin yfirleitt aðeins til tveggja mánaða

„Þessar tölur eru í rauninni sláandi vegna þess að þær eru mjög svipaðar þeim tölum úr niðurstöðu könnunar sem gerð var 6. apríl,“ segir Isabel. Niðurstöðurnar gefi vísbendingu um að átak stjórnvalda til þess að fjölga sumarstörfum dugi ekki nógu vel til þess að koma til móts við nemendur í atvinnuleit.

Vinnumálastofnun hefur stýrt átaki um að fjölga sumarstörfum fyrir námsmenn. Verkefnið er unnið í samstarfi við ríkisstofnanir og sveitarfélög. Nýsköpunarsjóður námsmanna fékk jafnframt aukin fjárframlög frá ríkinu og fór síðari úthlutun fram á föstudaginn. Alls hlutu 426 nemendur í 284 verkefnum styrk. 

Mynd með færslu
Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs HÍ.

Isabel bendir á að ráðningartímabil flestra þeirra starfa sem stjórnvöld hafa komið á fót vegna faraldursins sé aðeins tveir mánuðir. Sumarfrí flestra háskólanema sé hins vegar lengra en þrír mánuðir.

Hún segir að þessi stutti ráðningartími geti komið verulega niður á nemendum enda áforma margir að nota sumarhýruna fram á vetur. „Við notum sumarið ekki bara til þess að halda okkur á floti heldur líka til að vinna okkur inn tekjur fyrir næsta skólaár,“ segir hún. 

Isabel gagnrýnir jafnframt að 75.000 króna skrásetningargjald sem nemendur í Háskóla Íslands greiða ár hvert hafi ekki verið fellt niður vegna aðstæðna. Í könnuninni kemur fram að gjaldið sé íþyngjandi fyrir 45,6 prósent stúdenta.

Veit um nemendur sem íhuga að halda ekki áfram námi í haust

Isabel hefur heyrt af nemendum sem íhuga að breyta áformum sínum í haust vegna lakrar fjárhagsstöðu. „Ég veit um dæmi nemendur sem eru alvarlega að spá í að fara ekki í nám í haust vegna þess að þeir þurfa að vinna,“ segir hún. Margir af þeim nemendum sem leitað hafa til Stúdentaráðs vegna fjárhagsvandræða sé fjölskyldufólk.

Isabel telur þó ekki að nemendum eigi endilega eftir að fækka næsta haust enda margir að slá heimsreisum á frest eða að halda í nám vegna atvinnuleysis, líkt og í fjármálakreppunni 2008. 

Stúdentaráð hyggst halda áfram að kanna fjárhagsstöðu og líðan háskólastúdenta í sumar. „Við stefnum á að gera fleiri kannanir til þess að sjá hvernig þetta þróast í sumar. Hins vegar er leiðinlegt að framkvæma könnun eftir könnun án þess að gripið sé til aðgerða,“ segir Isabel.