Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vísbendingar um að Covid-19 hafi byrjað í fyrrasumar

09.06.2020 - 10:17
epa08423299 A medical worker takes a swab from a worker for a coronavirus test at a factory in Wuhan, China, 15 May 2020. The city plans to test all its citizens, over 10 million people, within the next 10 days.  EPA-EFE/LI KE CHINA OUT
Tekin voru sýni úr 9,8 milljónum manna í Wuhan seinni partinn í maí. Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
Aukin umferð fyrir utan sjúkrahús í Wuhan-borg í Kína í fyrrasumar þykir benda til þess að kórónuveiran hafi byrjað að leggjast á fólk mun fyrr en talið hefur verið hingað til.

Vísindamenn við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum hafa rannsakað gervihnattarmyndir sem sýna aukna umferð fyrir utan fimm sjúkrahús í borginni Wuhan þar sem veikinnar varð fyrsta vart. Þessarar auknu umferðar gætti þegar í ágúst í fyrrasumar. Það stemmir líka við þá staðreynd að íbúar Wuhan fóru á sama tíma að slá upp í auknum mæli orðunum „hósti“ og „niðurgangur“ á leitarvélum á netinu, en þetta tvennt er á meðal þekktra einkenna Covid-19 veikinnar.

Hingað til hefur verið talið að veikin hafi skotið upp kollinum í nóvember í fyrra, en kínversk stjórnvöld tilkynntu Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni á gamlársdag um fjölda sjúklinga með lungnabólgu af óþekktum orsökum.

John Brownstein, sem fer fyrir rannsókninni, sagði í samtali við fréttastofu ABC að gögnin sýndu, eins og hann orðaði það, mikinn „félagslegan óróa“ á svæðinu miklu fyrr.
 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV