Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Saksóknari segir Andrés fara frjálslega með sannleikann

09.06.2020 - 08:10
epa08005338 (FILE) Britain's Prince Andrew, Duke of York arriving at Murdoch University in Perth, Western Australia, Australia, 02 October 2019.  Prince Andrew is facing a backlash following his Newsnight interview in which he defended his friendship with Jeffrey Epstein after lawyers who represent 10 of the billionaire predator?s victims branded the royal unrepentant and implausible and demanded that he speak to the FBI.  EPA-EFE/RICHARD WAINWRIGHT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Geoffrey Berman, saksóknari í máli bandaríska barnaníðingsins Jeffrey Epstein, segir Andrés prins hafa farið frjálslega með sannleikann í yfirlýsingu sinni í gær. Prinsinn hafi nefnilega ítrekað neitað að mæta í skýrslutöku hjá bandarískum yfirvöldum.

Fram kom í fréttum í gær að bandarísk yfirvöld hefðu farið þess formlega á leit að prinsinn gæfi skýrslu um tengsl sín við Epstein. 

Lagateymi Andrésar var ósátt við að þessum upplýsingum skyldi vera lekið og sagði í yfirlýsingu að skjólstæðingur þeirra hefði þrívegis boðið fram aðstoð sína.

Deilunni var þó hvergi nærri lokið því seint í gærkvöld birti Berman saksóknari nokkuð harðorða yfirlýsingu. Hann sagði prinsinn enn og aftur vera að reyna sannfæra almenning um að hann væri viljugt vitni sem væri reiðubúið til að aðstoða við rannsóknina á mansali Epsteins og skósveina hans.

Sannleikurinn væri sá að prinsinn hefði ekki rætt við yfirvöld, hefði ítrekað neitað beiðnum um viðtöl og fyrir fjórum mánuðum hefði hann tilkynnt að hann myndi ekki mæta í slíkt viðtal. Dyrnar stæðu honum þó áfram opnar ef honum snerist hugur.

Lagateymi Andrésar neitaði að tjá sig frekar um málið. Samkvæmt heimildum BBC er lagateymið óánægt við framgöngu Berman og telur að hann hafa brotið gegn trúnaðaskyldum sínum með yfirlýsingum sínum. Ekki væri hægt að treysta því að prinsinn fengi sanngjarna meðferð hjá saksóknaraembættinu.

Jeffrey Epstein hafði verið ákærður fyrir mansal á ungum stúlkum þegar hann svipti sig lífi í fangaklefa í ágúst á síðasta ári . Andrés prins var gagnrýndur fyrir vináttu sína við Epstein, ekki síst eftir að í ljós kom að hann hafði heimsótt Epstein, þá dæmdan barnaníðing.

Prinsinum tókst ekkert sérstaklega vel upp þegar hann reyndi að varpa ljósi á samskipti þeirra tveggja í frægu viðtali við BBC. Í framhaldinu sagði hann sig frá öllum skyldustörfum hjá bresku konungsfjölskyldunni og bauð fram aðstoð sína.  Þá hefur hann verið sakaður um kynferðismök við 17 ára stúlku, ásökunum sem hann neitar staðfastlega þar sem hann hafi verið á „pizzustað í Woking“ þegar brotið á að hafa átt sér stað.