Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ráðuneytið studdist við gamlar upplýsingar af Wikipedia

09.06.2020 - 21:54
Mynd með færslu
Þorvaldur Gylfason Mynd: RÚV - RÚv
Fjármálaráðuneytið studdist við úreltar upplýsingar af alfræðisíðunni Wikipedia þegar það mælti gegn því að Þorvaldur Gylfason prófessor yrði ráðinn til að ritstýra samnorrænu fræðiriti. Ráðuneytið baðst velvirðingar á því í dag að hafa farið með rangt mál. 

Kjarninn sagði frá því í dag að fjármálaráðuneytið hefði lagst gegn því að Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, yrði ráðinn til að ritstýra norræna fræðiritinu Nordic Economic Policy Review. Samnorrænn stýrihópur hefur umsjón með útgáfunni, og á fjármálaráðuneytið fulltrúa þar. Þorvaldur taldi sig hafa verið búinn að fá starfið síðasta haust, en honum var síðar tilkynnt að hann fengi það ekki.

Fram kom hjá Kjarnanum að embættismaður hjá íslenska fjármálaráðuneytinu hefði lýst þeirri skoðun við norræna kollega sína að ráðuneytið gæti ekki stutt Þorvald sem ritstjóra. Þetta var skýrt á þann veg að hann væri virkur í pólitík, hefði verið, og væri enn, eftir því sem næst yrði komist, formaður stjórnmálaflokksins Lýðræðisvaktarinnar.

Ráðuneytið studdist hins vegar þarna við rangar upplýsingar, enda var Þorvaldur hættur sem formaður. Í svari ráðuneytisins til Kjarnans kemur fram að stuðst hafi verið við upplýsingar af alfræðivefnum Wikipedia, þar sem hver sem er getur sett inn upplýsingar. Ráðuneytið segir að sjónarmiðin hafi ekki verið borin undir ráðherra eða yfirstjórn, og virða beri í hvívetna akademískt frelsi fræðimanna. Ráðuneytið biðst velvirðingar á að hafa farið með rangt mál.
 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV