Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Norður-Kórea slítur samskiptum við suðrið

09.06.2020 - 00:42
epa07751051 (FILE) - A general view over the Demilitarized Zone (DMZ) on the border with North Korea in Cheorwon, Gangwon Province, South Korea, 24 July 2018 (reissued 01 August 2019). South Korea's Joint Chiefs of Staff (JSC) said on 01 August 2019 that the South Korean military detained a North Korean soldier who crossed the heavily fortified DMZ late on 31 July 2019. The soldier, who intended to defect to the South, was detected by thermal imaging equipment moving south near the Imjin River, JSC added.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
 Mynd: EPA
Stjórnvöld í Norður-Kóreu tilkynntu í kvöld að þau ætli að slíta hernaðar- og stjórnmálatengslum við nágranna sína í Suður-Kóreu. Stjórnvöld í Pyongyang höfðu áður hótað þessu vegna áróðursbæklinga gegn þeim sem sendir hafa verið yfir landamærin úr suðri. 

Pattstaða hefur verið í samskiptum ríkjanna undanfarna mánuði, þrátt fyrir þrjá leiðtogafundi þeirra Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu og Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, síðustu tvö ár. Í norðurkóreska ríkissjónvarpinu var tilkynnt að öllum tengslum verði slitið frá og með hádegi að staðartíma, eða klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma. Samskiptalínan sem verið hefur á milli ríkjanna á sameiginlegri skrifstofu þeirra við landamærin verður tekin úr notkun, auk hernaðarsamskipta við austur- og vesturströnd ríkjanna. Eins verður beinni tilraunalínu á milli leiðtoga ríkjanna slitið, segir í fréttatilkynningu Norður-Kóreu. 

Staðið við hótanir síðustu viku

Norðurkóresk stjórnvöld hótuðu því í síðustu viku að loka samstarfsskrifstofu ríkjanna við landamærin. Auk þess sögðust stjórnvöld ætla að grípa til harðari aðgerða sem yrðu til þess að stjórnvöld í Seúl myndu þjást. Eins hótaði Kim Yo Jong, systir Kim Jong-Un, því að slíta hernaðarsamkomulagi ríkjanna, nema aðgerðarsinnar úr suðri hætti að senda áróðursbæklinga yfir landamærin.
Samskipti Kóreuríkjanna rofnuðu nokkuð eftir að leiðtogafundi Kim og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Hanoi í Víetnam í fyrra lauk snemma án niðurstöðu. Síðan þá hafa viðræður um kjarnorkumál Norður-Kóreu staðið í lausu lofti.

Líta á Suður-Kóreu sem óvinaþjóð á ný

Í fréttatilkynningu norðurkóreska ríkissjónvarpsins segir að aðgerðir suðurkóreskra yfirvalda undanfarið hafi eyðilagt samskipti Kóreuríkjanna. Stjórnvöld í Pyongyang hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé engin þörf að setjast niður með kollegum þeirra í suðri, og engin málefni að ræða, þar sem þau hafi aðeins valdið vonbrigðum. Þá var því bætt við að þau Kim Yo Jong og embættismaðurinn Kim Yong Chol hafi lagt áherslu á að málefni er varða Suður-Kóreu séu nú málefni er varða óvinaþjóð.

Samkvæmt suðurkóresku fréttastofunni Yonhap hefur símtölum stjórnvalda í Seúl til samvinnuráðherra norðan landamæranna verið ósvarað síðustu tvo daga.