Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íbúðaverð hækkar mest á Akranesi

09.06.2020 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Íbúðaverð hækkaði mest á Akranesi síðasta árið. Verð á íbúðum hefur hækkað meira utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess, en sú þróun er í samræmi við þróun síðustu ára. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans um fasteignamarkaðinn.

Íbúðaverð á Akranesi hækkaði um 16% á tímabilinu frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs til fyrsta ársfjórðungs þessa árs. Næstmest hækkaði verð í Árborg, um 10%. Til samanburðar hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 3,4%. Í Hagsjánni kemur fram að mikil verðhækkun á Akranesi skýrist af mikilli sölu á nýjum íbúðum.

Ef litið er yfir síðustu fimm ár hefur íbúðaverð hækkað mest í Árborg þar sem það hefur ríflega tvöfaldast. Til samanburðar hefur það hækkað um 50% á höfuðborgarsvæðinu.  

COVID-19 heldur verðhækkunum í skefjum 

Samkvæmt hagfræðideild Landsbankans koma áhrif COVID-19 faraldursins á fasteignamarkaðinn sennilega skýrar fram á öðrum fjórðungi ársins.

Í Hagsjá sem bankinn gaf út þann 20. maí síðastliðinn kom fram að framboð á fasteignum væri að ,,komast í eðlilegt horf eftir samkomubann“ en enn væri óljóst hversu hratt eftirspurnin tæki við sér. 

Í samtali við fréttastofu segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur á hagfræðideild Landsbankans, að gera megi ráð fyrir hóflegum verðhækkunum á fasteignamarkaði þetta árið. COVID-19 faraldurinn gæti haft í för með sér minni eftirspurn á fasteignamarkaði en ella og þar með minni verðhækkanir. Hagfræðideildin spái um tveggja prósenta hækkun á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu þetta árið. 

Útreikningar hagfræðideildar Landsbankans byggja á útreikningum Hagstofu Íslands og gögnum úr Verðsjá Þjóðskrár Íslands.